140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Hann kemur væntanlega í seinna svari sínu inn á spurningu mína sem ég vil ítreka, hvort hann telji að skoðanakönnun gæti skilað okkur því sama. Ég tek undir þetta, ég óttast að við séum að fara dálítið út um víðan völl og mér fannst reyndar að spurningar hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar væru líka mjög óskýrar og kölluðu á frekari spurningar. Í þessu andsvari er ég kannski að einbeita mér að því að gagnrýna það ferli sem við erum að ræða í dag, og mundi vilja fá fram skoðun hv. þingmanns á því hvort ekki hefði verið eðlilegra að niðurstaða stjórnlagaráðs, þegar hún kom fram, hefði verið sett í faglega yfirferð og vinnu Alþingis. Það mátti öllum vera ljóst að greinargerð sú sem fylgdi tillögum stjórnlagaráðs skýrði engan veginn málið heldur vakti fleiri spurningar en hún svaraði.