140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hv. þingmaður kom inn á þetta í ræðu sinni og andsvörum, hvernig eigi að uppfylla þær kröfur sem eru gerðar í þessum tillögum með tilliti til lagasetningar og að fylgja því eftir að allir geti búið við mannlega reisn og allir geti haft atvinnu og svo framvegis. Mér sýnist nefnilega að tillögur stjórnlagaráðs skapi kannski fleiri vandamál en þær leysa. Hugsunin er án efa mjög góð og falleg og maður getur tekið undir flestallt af þessu tagi í tillögunum. En það er annað mál þegar kemur að því að semja lög sem eiga til dæmis að taka á því að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang, þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem það varðar, eins og segir í 12. gr.

Hér eru fjölmargir þingmenn sem þekkja það úr fyrri störfum sínum, hafa t.d. setið í félagsmálanefndum sveitarfélaga, (Forseti hringir.) að þetta er oft helsti ásteytingarsteinninn.