140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er sammála mörgu af því sem þingmaðurinn sagði í ræðu sinni en kannski ekki alveg öllu.

Það sem ég velti fyrir mér og það eru kannski þær vangaveltur sem hv. þingmaður er með varðandi fyrstu spurninguna og vil ég þá nota tækifærið og koma því á framfæri. Ég held að það sé mjög mikilvægt, ef hægt er að laga þetta eitthvað, að byrjað sé á því að laga þá spurningu. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á eru menn sammála um sumt í þessum tillögum og um annað ekki. Hér er bara gefinn kostur á því að vera sammála þeim öllum eða engum sem er röng aðferð, fólki er ekki gefinn kostur á að velja greinar eða segja álit sitt á einstökum greinum, fyrir utan það að bætt er við ákveðnum spurningum sem ekki er nokkur einasta sátt um heldur, og menn eru að velta fyrir sér af hverju spurt er um þessa hluti en ekki aðra.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í einmitt 67. gr. Það kom augljóslega fram hjá hv. þingmanni að ef sú grein væri í gildi í dag hefðum við ekki getað sent Icesave-málið til þjóðarinnar, ég lít alla vega svo á. Ef ný stjórnarskrá verður orðin að veruleika áður en Evrópuviðræðurnar eru leiddar til lykta og ákvæði sem þetta væri inni, að alþjóðlegar skuldbindingar eða samningar ættu ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, er það þá rétt skilið hjá mér að samkvæmt stjórnarskrá mætti ekki spyrja þjóðina um samning sem hugsanlega verður til út þessum Evrópuviðræðum?