140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr um þetta vegna þess að mér finnst að sumu leyti stangast á ákveðið orðalag í 67. gr. og 111. gr. þar sem kveðið er á um að ákveðnir samningar skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. En það er nú annað, en þetta er eitt af því sem þarf að skýra að mínu viti.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um núna er 91. gr. í tillögum stjórnlagaráðs, þar segir, með leyfi forseta:

„Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.“

Ég spyr hv. þingmann hvort þingmaðurinn telji eðlilegt að setja svona ákvæði inn í stjórnarskrá, að stjórnarandstaða á hverjum tíma — lítum bara á stjórnarandstöðuna í þinginu í dag, ætti að koma sér saman um hver eigi að taka við ef flutt yrði vantraust á sitjandi forsætisráðherra. Það er ekki útilokað að menn kæmust að samkomulagi um slíkt innan stjórnarandstöðu en það eru hins vegar jafnlitlar líkur á að tækist. Með þessu er verið að skerða mjög möguleika stjórnarandstöðu til að koma fram með vantraust ef það er stemning fyrir slíku í þinginu á einhverjum tíma.

Mér finnst svolítið sérstakt að sjá svona lagað í stjórnarskrá, að settur sé beinlínis texti fram sem er til þess fallinn að takmarka möguleika stjórnarandstöðu. Maður hefði talið nægilegt að ráðherra eða ríkisstjórn á hverjum tíma hefði bara þann þingmeirihluta sem þarf til að sitja og að stjórnarandstaða þurfi ekki að koma sér saman um eftirmann. Þar af leiðandi tel ég að þessi grein sé sitjandi stjórnvöldum á hverjum tíma mjög í hag.