140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum breytingartillögu við tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitamál þeim tengd. Ég held að það sé þörf á því að ræða það að við erum ekki að leggja til að farið sé í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána. Í vikunni birtist grein eftir mæta konu sem taldi það rétt þjóðarinnar að fá að greiða atkvæði um stjórnarskrána. Ég er þeirri konu sammála en sú ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sem þingið ræðir hér á ekkert skylt við þá atkvæðagreiðslu þegar að því kemur að leggja fyrir þjóðina breytta eða nýja stjórnarskrá til samþykktar eða synjunar. Við erum hér að ræða allt annað mál. Við erum að ræða hvort leggja eigi fyrir þjóðina í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu spurningar um hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að vera lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá eður ei. Síðan erum við að ræða það að leggja fyrir samhliða í ráðgefandi atkvæðagreiðslu sex spurningar sem allar eru frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka það skýrt fram enn og aftur að þessi fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki um nýja stjórnarskrá. Það virðist vera ríkjandi misskilningur úti í samfélaginu að svo sé, en svo er ekki. Margir á þingi tala einnig eins og um það sé að ræða að ný stjórnarskrá sé á leiðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hins vegar eru málin þannig hér og nú að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur kallað til sérvalda hæfa lögfræðinga til að fjalla um tillögur stjórnlagaráðs og kanna hvort það sé innbyrðis samræmi í þeim tillögum og hugsanlega þá koma með athugasemdir ef svo er ekki. Þegar þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla mun hafa farið fram og þjóðin sagt sitt um þær spurningar sem hér liggja fyrir mun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taka þetta tvennt, niðurstöður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu ásamt athugasemdum þeirra sérfræðinga sem nú hafa verið ráðnir til að fjalla um tillögurnar, og leggja í haust fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem þingið verður þá að ræða og afgreiða sem slíkt. Þær tillögur sem þá verða samþykktar verða drög að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin fær síðan að greiða atkvæði um, væntanlega í næstu alþingiskosningum samhliða því að kjósa nýtt þing. Mér finnst stundum, virðulegur forseti, eins og þessir þættir séu töluvert á reiki.

Umræðan sem við erum hér í er að mörgu leyti sérstök vegna þess að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram sex spurningar. Hins vegar liggja líka fyrir tvær breytingartillögur frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fjórar breytingartillögur frá 1. minni hluta. Það eru tvær breytingartillögur frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem sæti á í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og 11 breytingartillögur frá þingmönnum sem ekki eiga sæti í umræddri nefnd. Ég hef ekki orðið vör við mikla umræðu hér á milli stjórnarliða annars vegar og stjórnarandstæðinga hins vegar um allar þessar breytingartillögur, hvort okkur þyki ástæða til að fjölga þeim spurningum sem eru á þessum spurningavæng við 3. efnisgrein, að þar bætist við allt að 17 viðbótarspurningar. Ég held að svo verði reyndar ekki, virðulegur forseti, en það er ekki verið að ræða þær breytingartillögur sem liggja fyrir. Ég ítreka það sem ég hef sagt í mínum fyrri ræðum að mér þykir vont að í þeim spurningum sem hin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á að taka afstöðu til skuli ekki með einu orði minnst á afstöðu þjóðarinnar til forsetaembættisins og þá þess hvort samhliða því að hluti þjóðarinnar eigi að geta kallað til þjóðaratkvæðagreiðslu eigi forsetinn áfram að hafa það vald í sinni hendi að vísa lögum sem samþykkt hafa verið á Alþingi, og embættið telur að sé ágreiningur um hjá þjóðinni, til þjóðaratkvæðagreiðslu. Á sá sem gegnir embætti forseta Íslands, hugsanlegur minni hluti þingmanna og ákveðið hlutfall þjóðarinnar að hafa tækifæri til að vísa lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Þarna stangast á nokkuð sem ég hefði kosið að breytingartillaga við hefði fengið umræðu um. Hún er frá 1. minni hluta, frá hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, og þar stendur, með leyfi forseta:

„Við 3. efnismgr. bætist nýr töluliður er orðist svo: Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem forseta Íslands er heimilað að synja lagafrumvörpum staðfestingar og vísa þeim þannig í þjóðaratkvæðagreiðslu?“

Ég held að það sé brýnt að samhliða 6. spurningu frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?“, komi hin spurningin inn þannig að þá sé ljóst hvort þjóðin vill að bæði embætti forseta Íslands og tiltekið hlutfall kosningarbærra manna hafi tækifæri til að taka afstöðu til mála af þessu tagi. Mér þætti betra ef við værum líka að ræða þær breytingartillögur sem liggja fyrir vegna þess að þær tengjast margar því hvort það eigi að vera eitt kjördæmi í þessu landi. Með spurningunni um það hvort það eigi að vera jafnt atkvæði kjósenda erum við að ræða um landið sem eitt kjördæmi, að mínu mati. Hér hristir maður úti í sal höfuðið og er ekki sammála því, en það gefur augaleið að stór og mikil kjördæmi eins og Suðvesturkjördæmi sem við hv. þm. Magnús Norðdahl erum bæði þingmenn fyrir mundi græða á hugmyndinni eitt atkvæði, einn maður en minni kjördæmi, eins og Norðvesturkjördæmi sem Norðvesturkjördæmi, mundu verulega tapa nema að með einhverjum öðrum hætti yrði horft til þess að jafna aðstöðu þar. Það gæti orðið flókið.

Þetta er, virðulegur forseti, um margt sérkennilegt mál og merkilegt. Ég ætla að láta þessari ræðu minni lokið núna en ítreka að æskilegt væri að við ræddum þessar breytingartillögur samhliða þeim tillögum sem liggja fyrir frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.