Sérstök lög um fasteignalán

Mánudaginn 21. maí 2012, kl. 15:40:38 (10553)


140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

sérstök lög um fasteignalán.

788. mál
[15:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ber upp fyrirspurn til hæstv efnahags- og viðskiptaráðherra um hver sé afstaða hans til þess að setja sérstök lög um fasteignalán er skilgreina fjármögnun þessara lána, veðsetningarhlutföll, lengd lánstíma, greiðslumat, upplýsingagjöf til lántakenda og greiðsluerfiðleikaúrræði sem lánveitendur yrðu að veita.

Ástæðan fyrir því að ég vil taka þetta sérstaklega upp við hæstv. ráðherra er sú að ég tel fátt mikilvægara fyrir heimili, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið en að tryggja skynsamlegt og stöðugt umhverfi á fasteignamarkaði hér á landi. Að mínu mati er stór hluti af því að setja sérstök lög um fasteignalán sem taka á þeim þáttum sem ég nefndi. Undir þetta hafa ýmsir tekið eftir reynslu síðustu ára enda mjög margir brenndir eftir firringuna í fjárfestingum í húsnæði á Írlandi, Spáni, undirmálskrísuna í Bandaríkjunum og 100% plús lánveitingar til húsnæðiskaupa hér á landi. Eftir standa gjaldþrota bankar, fyrirtæki, ofskuldsett heimili og ríki.

Ýmsir hafa rætt um þetta, mikilvægi þess að tengja á milli annars vegar fjármálalegs stöðugleika húsnæðismarkaðs og síðan áhrif þess á peninga- og fjármálastefnu. Eitt af því sem menn hafa nefnt, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og á ráðstefnu á vegum sænska seðlabankans og líka í skýrslu sem kom frá okkar eigin seðlabanka, er að taka upp svokölluð þjóðhagsvarúðartæki. Þessum stjórntækjum er ætlað að draga úr ofvexti í fjármálakerfinu og oft í tengslum við aðrar hagstjórnaraðgerðir til að draga úr hagsveiflum. Kjarni þessara tillagna eru beinar takmarkanir á umfangi lánastarfsemi og auknar kröfur um eigið fé og laust fé fjármálafyrirtækja.

Dæmi sem gætu þannig tengst sérlögum um fasteignalán eru til dæmis hámark á hlutfall lána af veðhæfri eign líkt og hér er spurt um, hámark á hlutfall skulda af tekjum bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, hámark skuldsetningarhlutfalls miðað við eignir, hámark á aukningu lánveitinga og sérstaklega á lán tengd erlendri mynt, auknar kröfur um varúðarsjóði vegna lánveitinga, þar með taldar varúðarsjóðskröfur tengdar útlánavexti, takmarkanir á mismun í tímalengd á eignahlið og skuldahlið og síðan takmarkanir á vaxtaáhættu.

Ákveðin fyrirmynd hvað varðar fasteignalánalög gætu verið dönsku fasteignalánin og vona ég að hæstv. ráðherra hafi kynnt sér þau lög. Þar má finna skýr ákvæði um hverjum megi lána til húsnæðiskaupa, hvernig þau eigi að fjármagna sig samkvæmt hinni svokölluðu jafnvægisreglu þar sem skuldabréfið endurspeglar fullkomlega íbúðabréfið, hvernig standa skal að mati á markaðsvirði viðkomandi fasteignar, hvert er hámarksveðhlutfall út frá markaðsvirðinu og hver er hámarkstímalengd þessara lána.

Því til viðbótar teldi ég eðlilegt að sett yrðu skilyrði um greiðsluerfiðleikaúrræði og upplýsingagjöf til lántakenda. Telur hæstv. ráðherra tímabært að hefja undirbúning að þess háttar löggjöf á Íslandi?