140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson út í þann þátt ræðu hans er varðar aðkomu þessara lögfræðilegu sérfræðinga og hvað honum finnist um það að á sama tíma og þeir séu ráðnir til verks, sem ég tek undir með hv. þingmanni að sé aðeins óráðið hvernig þeir eiga að vinna, séum við að leggja til að hér fari fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur sem eru sumar hverjar alla vega mjög umdeildar. Tillögurnar sem komu frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar voru þess eðlis að landskjörstjórn lagði til breytingar sem lagt er til í nefndarálitinu teknar verði upp.

Það sem hefur staðið svolítið í mér og ég hefði áhuga á að heyra álit hv. þingmanns á er: Hvað gerist í haust varðandi þessar tillögur og jafnvel einhverjar þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram, sem eru yfir 20 talsins? Um þær verða greidd atkvæði og auðvitað vitum við ekkert hver niðurstaðan verður. Í hverju mun að mati hv. þingmanns vinna sérfræðinganna felast þangað til þjóðaratkvæðagreiðslan verður og þegar hún er búin? Það er kannski stóra málið og við þurfum að fara að velta fyrir okkur hvað tekur þá við. Hvernig á að meta niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu? Verða þá sérfræðingarnir hafðir áfram með í ráðum til að túlka þær niðurstöður fyrir meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar? Hvernig á það að hljóma og ríma saman við það að tillagan fari síðan óbreytt til þjóðarinnar? Ég sé ekki alveg hvernig það á allt að ríma saman.