140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður verður að virða það við mig að ég skuli spyrja hann spurninga þar sem hann situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því að ekki er hægt að spyrja þá sem sitja í meiri hlutanum. Þeir hafa ekki sést hér við umræðuna, alla vega ekki það sem af er dagsins og hafa þeir lítt tekið þátt í umræðunni til þessa.

Mér finnst mjög mikilvægt að menn velti fyrir sér nákvæmlega hverju þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á að skila. Ég vitna hér til minnisblaðs sem ég veit að hv. þingmaður þekkir, frá Björgu Thorarensen prófessor sem hún skilaði í nefndina, þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Nú er til umfjöllunar tillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort tillaga stjórnlagaráðs skuli lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Slík atkvæðagreiðsla sem hefur það markmið að leita leiðsagnar frá kjósendum getur ekki komið í staðinn fyrir að þjóðin taki beina afstöðu til nýrrar stjórnarskrár með bindandi niðurstöðu, með öðrum orðum samþykki hana eða hafni henni, eftir að Alþingi hefur samþykkt hana í endanlegri mynd.“

Ég held að það sé líka orðið almennt viðurkennt, þó að ekki heyrist mikið frá meiri hlutanum, að eftir stendur að niðurstaðan verður ekki bindandi. Lagðar verða fram einhverjar spurningar og á sama tíma er verið að vinna aðra vinnu. Eftir því sem hv. þingmaður segir á hún að vera alveg óháð hinni vinnunni. Þá spyr ég aftur, og bið aftur þingmanninn að virða mér það til vorkunnar að ég hef engan annan til að spyrja en hann sem fulltrúa úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

(Forseti (ÁRJ): Er það ósk hv. þingmanns að kallað verði eftir einhverjum meirihlutamönnum?)

Ég held að það væri eðlilegt að meirihlutamenn væru hér til svara. Ég ber upp spurningu mína að lokum: Hefur það hafi verið rætt í nefndinni að þessi tvö atriði fari saman? Ég ítreka það, frú forseti, að það væri gott ef hér væru einhverjir meirihlutamenn til að svara fyrir þá stöðu sem er hér uppi, annars verðum við að biðja hv. stjórnarandstöðuþingmenn sem sitja í nefndinni um svör.

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að fulltrúar úr nefndinni verði hér viðstaddir umræðuna.)