140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal veitir oft áhugaverða innsýn í mál sem hér eru til umræðu en nú er hv. þingmaður farinn að ræða tillögur stjórnlagaráðs efnislega. Má skilja þetta sem svo að hv. þingmaður telji að þingið eigi að fara yfir allar þessar tillögur áður en það sendir þær í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ef það er tilfellið, með hvaða rökum telur hv. þingmaður að það eigi að fara í gegnum alla þessa yfirferð í þinginu áður en þetta er sent í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Þetta kann að vera rétt hjá hv. þingmanni, ég er ekki að andmæla þessu, en það væri samt áhugavert að heyra hv. þingmann fara yfir rökin fyrir því, ef hann telur að þingið eigi að fara skipulega í gegnum tillögurnar efnislega.

Þá er náttúrlega spurning hvort hv. þingmaður telji að til þess sé tími. Þetta eru yfir 100 greinar í tillögum stjórnlagaráðs og það væri varla mjög mikið að flytja eins og eina fimm mínútna ræðu um hverja grein ef menn ætluðu að fara skipulega yfir þetta og það væru þá býsna margar fimm mínútna ræður sem þyrfti til að fara yfir þessar tillögur, ef þingið ætlaði að gera það áður en við setjum þær í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég ítreka spurninguna: Telur hv. þingmaður nauðsynlegt að þingið fari efnislega yfir tillögur stjórnlagaráðs? Hver eru rökin fyrir því? Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að til þess gefist tími? Við höfum séð umræðuna um það að menn hafi talað hér allt of lengi um þetta mál. Í hvaða aðstöðu er þingið til að klára þetta á þeim fáu dögum sem eru eftir ef fara á að ræða hverja einustu grein í tillögunum?