140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nefnt þetta áður en kannski ekki nógu greinilega. Í núgildandi stjórnarskrá eru sérstök ákvæði um að Alþingi eigi að ræða mál, það er ákvæði um það, menn eiga að ræða mál. Ég get því ekki séð hvernig Alþingi getur sent eitthvert plagg til kjósenda til að greiða atkvæði um það án þess að þingið hafi rætt það sjálft. Hvernig í ósköpunum eiga kjósendur að mynda sér skoðun eða fá þekkingu og mismunandi sjónarmið um þessar tillögur stjórnlagaráðs án þess að Alþingi hafi rætt þær?

Mér finnst eiginlega mjög miður, frú forseti, að nefndarmenn og hv. stjórnarliðar hafi ekki tekið þátt í umræðum og svarað öllum þeim spurningum sem hér hefur verið varpað fram, m.a. af mér, um hvernig eigi að túlka þessa og hina greinina. Er ekki ástæða til að breyta þessari og hinni greininni, t.d. varðandi dýravernd? Er ekki ástæða til að fella þá grein niður? Þetta hefur ekkert verið rætt. Svo á almenningur að greiða atkvæði um þetta.

Ég tel það skyldu okkar þingmanna, það er skylda okkar samkvæmt stjórnarskrá, að ræða þetta mál áður en við sendum það til þjóðarinnar. Við þurfum að hafa lesið það sjálf, við þurfum að hafa kynnt okkur málið áður en við ætlumst til að þjóðin fari að greiða atkvæði um það eftir að hafa kynnt sér það.