140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá komum við að virðingu fyrir kjósendum. Kjósandanum er ætlað að greiða atkvæði um plagg í haust, plagg sem heitir Drög að stjórnarskrá Íslands. Á sama tíma er Alþingi að vinna hér önnur drög og svo ætlar Alþingi að ræða málið í hörgul. Þá á að fara að taka út, bæta inn í og laga allt þetta sem ekki er í lagi. Hvað heldur aumingja kjósandinn sem er búinn að greiða atkvæði um stjórnarskrána sína þegar hann stendur frammi fyrir því að henni er allt í einu kollvarpað með rökum? Hann er búinn að segja já eða nei eftir atvikum, en hvað gerist svo ef kjósandinn segir nei? Verður þá allt lagt fyrir róða? Verður öllu hent? Er þá málið dautt og búið, eða hvað? Það þætti mér líka mjög miður vegna þess að það er mjög margt gott í þessum drögum.

Mér finnst þetta vera feigðarflan, frú forseti, ég vona að ég megi nota það orð, að fara þá leið sem hér er verið að fara. Þingið á að vinna þetta. Það átti að vinna þetta síðastliðið haust og í allan vetur. Í allan vetur hefði þingið getað rætt þetta, bæði í nefndinni og í umræðum hér á Alþingi. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál sem varðar, eins og hv. þingmaður sagði, hvern einasta Íslending. Óvissan sem kemur upp ef þetta er ekki nógu vel unnið er alveg geigvænleg og bætist við þá óvissu sem fólk býr við nú þegar. Ef upp kemur svo lögfræðileg óvissa um hvort mannréttindi haldi, hvort öryrkjar eigi rétt á þessu og hinu, ég gef ekki fyrir það, ég vil ekki sjá svoleiðis óvissu.