140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Áður en ég svara spurningu hv. þingmanns vil ég taka undir að það er mjög mikið áhyggjuefni að við skulum vera komin á þann stað að ríkisstjórnin sé búin að gera stjórnarskrá Íslands að pólitísku deilumáli og hafi fært stjórnarskrána inn á pólitískan vígvöll sinn þar sem hver höndin er upp á móti annarri og að hún sé að reyna að búa til sameiningu í eigin röðum um þetta mál og sé farin að draga Hreyfinguna inn í það og annað því um líkt.

Það er mikið áhyggjuefni við breytingar á stjórnarskrá að ekki sé leitast við af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar að vinna slíkar breytingar í breiðri sátt allra flokka og allra aðila í samfélaginu. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan er það ekki til þess fallið að ná niðurstöðu eða lendingu varðandi breytingar á stjórnarskrá. Breytingar á stjórnarskrá þurfa að ganga í gegn á tveimur kjörtímabilum. Sitjandi ríkisstjórn nýtur ekki stuðnings meiri hluta þjóðarinnar í dag. Þetta getur því allt breyst á milli kosninga. Þess vegna er svo mikið atriði að allir komi að samningaborðinu.

Varðandi þann spurningavagn sem ríkisstjórnin ætlar að setja fram hef áhyggjur af því að þær spurningar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur fram séu ekki nægilega skýrt orðaðar og erfitt verði að vinna úr niðurstöðum slíkrar könnunar á hvorn veginn sem svörin verða. Ég rakti það mjög vel í fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu að ég hefði einkum og sér í lagi áhyggjur af fyrstu spurningunni, hvernig hún væri orðuð, hvursu opin hún væri varðandi það að náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign. Þetta er gríðarlega loðið og þarf að skýra miklu betur.

Ég hef raunar áhyggjur af því að menn skuli ætla að fara út í skoðanakönnun á svo víðtækum grunni. Hvort sem það verður ein, fimm eða tuttugu spurningar þá þurfa þær að vera skýrt orðaðar.

Það sem ég benti á í ræðu minni hér áðan (Forseti hringir.) er að úr því menn ætla að fara af stað með slíkan vagn finnst mér vanta ákveðna málaflokka þar inn. Það er það sem ég hef lagt til ásamt hv. þm. Gunnari Braga í breytingartillögum.

(Forseti (ÁRJ): Gunnari Braga Sveinssyni.)

Afsakið, frú forseti.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða þá reglu að nefna þingmenn fullu nafni.)