140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og þessar spurningar.

Ég vil taka undir varðandi fyrsta liðinn, um hvort náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign. Þetta er mjög takmörkuð leiðsögn í rauninni sama hvernig niðurstöður spurningarinnar verða. Það kann að vera að þeir sem mundu segja nei við því að náttúruauðlindir yrðu þjóðareign væru álitnir glæpamenn eða eiginhagsmunaseggir, en svo er ekki. Það sem bent var á við fyrri umræðu var að það verður að skilgreina mjög vel hvað náttúruauðlindir eru. Eru tún bænda til dæmis náttúruauðlind? Grasið er ein náttúruauðlindanna. Það þarf auðvitað að skilgreina það. Er þá verið að mælast til þess að öll tún verði í þjóðareign? Svo þarf auðvitað að skilgreina hvað er þjóðareign. Er það eign ríkisins eða er það eign sveitarfélaga? Þetta þarf allt að liggja fyrir.

Það sem maður hefur áhyggjur af í sambandi við fyrstu spurninguna er að menn geti í rauninni sama hver niðurstaðan verður túlkað hana út og suður. Það þarf að vera gríðarlega skýrt þegar menn fara fram með spurningar eins og þessar.

Varðandi breytingartillögu hv. þingmanns er hún reyndar þannig orðuð að það er mjög auðvelt að taka afstöðu til hennar. Það er allt mjög skýrt í þeirri tillögu. Það er bara einföld spurning. Þjóðin yrði spurð að því hvort hún vilji hafa 63 eða 51 þingmann. Það er ekkert sem hægt er að túlka út og suður í þeirri spurningu, það er ekkert loðið við hana.

Varðandi þessa breytingartillögu tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni að það væri mjög fróðlegt að setja þessa breytingartillögu á spurningavagn ríkisstjórnarinnar og sjá hver afstaða þjóðarinnar væri til þessa máls. Ég tek undir með hv. þingmanni og hef töluverðar áhyggjur af því, sérstaklega eftir veru mína hér undanfarin þrjú ár, hvursu veik stofnun Alþingi er gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég hef ákveðnar áhyggjur gagnvart framkvæmdarvaldinu og að styrkur og starfsemi Alþingis sé ekki (Forseti hringir.) nógu góð. Ég hefði áhyggjur af því ef slík breytingartillaga næði fram að ganga, eins og hv. þingmaður benti á, að það mundi veikja stöðu Alþingis enn frekar.