140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta ber allt að sama brunni. Þetta er spurning um hvernig við viljum breyta stjórnarskránni. Hv. þingmaður spyr hvort hefði einfaldlega átt að kjósa upp á nýtt, eins og formaður okkar sagði á sínum tíma. — Já, það hefði átt að kjósa upp á nýtt í stjórnlagaþingsmálinu því að annars vanvirðum við stjórnarskrána. Þrígreining ríkisvaldsins er mjög skýr; löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þegar Hæstiréttur kveður upp sinn dóm ber okkur að fara eftir honum. Það gerði ríkisstjórn Íslands hins vegar ekki, heldur fór bakdyramegin og skipaði nefnd byggða á kosningu sem var ógild. Það var rangt að mínu mati. Við hefðum átt að fara í þetta verkefni og þessa vegferð alla aftur ef menn vildu þetta. Ég var hins vegar ekki sammála þeirri nálgun.

Ég hef þá trú, með fullri virðingu fyrir öllum þeim sem hér eru, að við getum enn náð saman um helstu breytingarnar á stjórnarskránni og að við getum sameinast um það að mannréttindaákvæðin sem breytt var 1995 hafi nýst okkur vel og reynst okkur vel. Þjóðin hefur kallað eftir ákveðnum breytingum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að eitt af því sem við sjálfstæðismenn hefðum til að mynda átt að einblína betur á í ríkisstjórn var að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við fengum hins vegar ekki þessa efnislegu umræðu. Hún náðist ekki í gegn. Ég sakna hennar. Ég sakna líka umræðu í þinginu um það hvort við eigum að hafa og setja ákvæði eins og Norðmenn hafa í stjórnarskrá sinni um framsal til alþjóðlegra stofnana, framsal sem tengist fullveldinu o.s.frv.

Ég tel að þessi tillaga, svo að ég víki mér að síðari spurningu hv. þingmanns, sé einfaldlega breytingartillaga sem eigi ekki lengur við. (Forseti hringir.) Hún er úrelt að mínu mati.