140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get upplýst það hér enn einu sinni og ég hef verið óþreytandi við að benda á það í allan vetur, síðan þessi drög komu inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að við í stjórnarandstöðunni höfum verið að kalla eftir því að sérfræðingarnir sem fyrir okkur voru kallaðir væru okkur til ráðgjafar. Það má heldur ekki líta svo á að þau drög sem stjórnlagaráð skilaði af sér séu heilagar kýr. Ég gagnrýni þetta gallaða frumvarp eins og önnur gölluð frumvörp sem koma inn í þingið.

Ég hef fengið pósta þar sem það er beinlínis sagt að ég vilji ekkert með þessar tillögur stjórnlagaráðs hafa, að ég hafi eitthvað á móti þessu ferli og jafnvel eitthvað á móti fólkinu sem sat í stjórnlagaráði. Svo er bara alls ekki. Ég lít á það sem skyldu mína sem þingmanns að laga gölluð mál sem koma inn í þingið. Í sumum málum hefur mér líka orðið mjög ágengt með það en það er einhver rosaleg meðvirkni í gangi með þessu máli, það má enginn andmæla því eða gagnrýna það. Þetta finnst mér svolítið óhuggulegt, virðulegi forseti, ég verð að segja óhuggulegt því að þetta mál er ekkert öðruvísi byggt en önnur mál sem koma inn í þingið. Hins vegar er með ólíkindum að þetta skuli vera komið svona langt vegna þess að þegar lögum er breytt eru þau lesin og bætt þar sem þarf að bæta þau eins og ég hef lagt til með stjórnarskrána sem nú þegar er í gildi og er búin að vera í gildi síðan 1944. Þannig átti að vinna málið. Stjórnlagaráð átti að taka þá stjórnarskrá sem er í gildi, gá hvar væru annmarkar á henni og koma með tillögur að þeim breytingum sem þyrfti að gera og eru búnar að vera nokkurt deiluefni í samfélaginu. Nei. Nú á að henda stjórnarskránni og taka upp þessar tillögur efnislega alveg óræddar. Og, jú, ég tek undir það með þingmanninum, ég held að stjórnvöld séu skíthrædd við að fá nei við þessu en þá standa þau líka frammi fyrir því (Forseti hringir.) að þau eru búin að uppfylla samninginn við Hreyfinguna, það var farið í málamyndaþjóðaratkvæðagreiðslu og þá er hægt að snúa sér að því að bæta þá stjórnarskrá sem er í gildi.