140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt við spurningu þingmannsins er: Já, ég tel að nú sé verið að ganga gegn ákvörðun Alþingis þegar meiri hluti þingmanna sagði nei við þeirri tillögu að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en kæmi að umfjöllun Alþingis. Mér þykir það slæmt vegna þess að ég tel að það skref sem verið er að stíga núna þjóni engum öðrum hagsmunum en, hvað á ég að segja, duttlungum einhverra sem fengu ekki það sem þeir vildu á sínum tíma. Ég tel líka að þessi leið sé farin ekki vegna þess að meiri hluti þingmanna sé sannfærður um að hún sé rétt heldur vegna þess að ríkisstjórnin hefur sýnt það, því miður, að hún er reiðubúin að gera nánast allt til að halda lífi.

Milli jóla og nýárs átti sér stað einhvers konar samkomulag milli Hreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar, hvort það var samþykkt eða ekki veit ég ekkert um en ég held því miður að þetta sé liður í því. Ég skal fara örlítið betur yfir muninn á afstöðu minni og Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma í seinna andsvari.