140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru svo sem ágætisrök í málinu að meiri hluti þingsins beri ábyrgð á skipan stjórnlagaráðs og þar af leiðandi því sem frá því kemur. Þar af leiðandi má segja að það liggi beint við að þingið ræði þær tillögur áður en það sendir þær frá sér.

Í stað þess að fara ofan í hverja tillögu fyrir sig því að það hefur einfaldlega ekki gefist tími til þess í þinginu hef ég reynt að bregðast við tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þeirri nálgun sem þar hefur verið rökstudd af formanni nefndarinnar, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, með því að fyrst og fremst sé verið að biðja fólk að taka afstöðu til hvaða hugmyndafræði eigi að leggja til grundvallar þegar rituð er stjórnarskrá. Þess vegna hef ég skilað þremur breytingartillögum er allar varða grundvallaratriði hugmyndafræðinnar þegar menn skrifa stjórnarskrá. Þær eru svohljóðandi:

Eiga breytingar á stjórnarskrá að miða að því að um hana verði sem víðtækust sátt?

Er mikilvægt að ákvæði stjórnarskrár Íslands séu framkvæmanleg?

Er mikilvægt að ákvæði stjórnarskrár Íslands séu auðskiljanleg?

Þetta legg ég fram vegna þess að okkur hefur verið kynnt það í þinginu af þeim sem fyrir þessari tillögu standa að ætlunin sé að leita til fólks um hvaða hugmyndafræði eigi að leggja til grundvallar. Þessum spurningum sem maður hefði kannski talið að væri auðsvarað, þyrfti ekki að takast mikið á um, er allt í einu ekkert svo auðsvarað miðað við þau rök sem hafa verið færð fram fyrir þessum breytingum nú. Sumir halda því fram að það þurfi ekkert endilega sátt um stjórnarskrá, að meiri hlutinn sem hefur náð völdum (Forseti hringir.) í þinginu núna geti notað tækifærið til að koma með sína stjórnarskrá. Eins megi stjórnarskrá hljóma eins og lýsing á því hvernig heimurinn ætti að vera og mér finnst tilefni til (Forseti hringir.) að spyrja þessara spurninga. Er hv. þingmaður sammála mér um það?