140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:34]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Breytingartillögur hv. þingmanns eru skynsamlegar, það er engin spurning. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé eiginlega ekki að æra óstöðugan að ætla að koma með einhverja skynsemi inn í þessar umræður sem hafa verið um stjórnarskrána og breytingar á henni um alllangt skeið. Það er alveg klárt mál að stjórnarskrá má ekki vera eitthvert kosningaplagg, einhver síðdegisblaðaauglýsing eða sjónvarpsauglýsing. Stjórnarskrá á, eins og hv. þingmaður sagði, að vera grundvölluð á lögum og gagnsæjum skilningi fólks almennt á því sem stendur í stjórnarskránni, ekki eitthvert túlkunaratriði úr mismunandi röðum stjórnmálamanna.

Það er auðvitað lykilatriði, eins og hv. þingmaður kom inn á, að byggja upp aðstæður og viðmið í þjóðfélagi okkar sem auka lífshamingju. Stjórnarskrá má ekki gefa færi á mismunandi túlkun og öll umræðan í framgangi málsins þar sem forsætisráðherra hefur keyrt málið áfram með olnbogunum, óháð öllu samstarfi og samræðum við þingmenn Alþingis, (Forseti hringir.) er stefna í ógöngur.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um þessa hættu.