140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða þetta plagg — ég veit ekki hvað ég á að kalla það — sem þjóðin á að greiða atkvæði um í október. Þetta er væntanlega ekki stjórnarskrá, alls ekki ný stjórnarskrá, en þetta eru drög að stjórnarskrá frá stjórnlagaráði.

Fyrst þegar maður er með einhverja lagasetningu þarf að afmarka fyrir hvern lagasetningin gildir. Í þessum drögum er það út og suður, frú forseti. Í aðfararorðunum sem ég er í sjálfu sér á vissan hátt hrifinn af stendur, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt þjóðfélag þar sem allir sitja við sama borð.“

„Við sem byggjum Ísland“ — ég mundi segja að túristar sem koma hingað á sumrin væru ekki í þeim hópi. Þetta er fólk sem býr hérna varanlega, að minnsta kosti í svona þrjú, fjögur ár. Menn sem vinna hér í eitt ár, einhverjar fótboltahetjur og aðrir slíkir, mundu varla vera taldir „við sem byggjum Ísland“.

Síðan er allt í einu í 4. gr. talað um ríkisfang. „Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang.“ Þarna er farið að tala um að þeir séu einhvern veginn í þessum hóp, en það þarf ekkert að vera samkvæmt aðfararorðunum vegna þess að þau eiga við um: „Við sem byggjum Ísland.“ Það er til fólk með íslenskt ríkisfang sem aldrei hefur komið til Íslands. Það er til fólk sem kann ekki íslensku og er með íslenskt ríkisfang. Ég hef meira að segja hitt fólk sem kunni ekki íslensku en var samt með íslenskan ríkisborgararétt — hitti það reyndar í sendiráðinu í Bonn þegar það var að ná sér í nýjan passa. Viðkomandi kunni ekki íslensku.

Síðan í 5. gr. er allt í einu talað um skyldur borgaranna. Í 5. gr. stendur: „Skyldur borgaranna“ — þá eru borgararnir allt í einu orðnir hluti af þeim sem stjórnarskráin á að ná yfir. Nú veit ég ekki hverjir eru borgarar. (GÞÞ: Borgaraflokkur.) Yfirleitt mundu bændur seint verða taldir borgarar — og þó. En þetta er sem sagt alveg opið. (GÞÞ: Ég sagði að þeir sem væru í Borgaraflokknum væru borgarar.) Já, þeir sem voru í Borgaraflokknum gætu verið borgarar. Þetta sýnir hvað þessi drög eru illa unnin, enda skiljanlegt því að menn fengu allt of stuttan tíma til að búa til eitt stykki stjórnarskrá og áttu í sjálfu sér að neita því. Að einhverjum skyldi detta í hug að búa til eitt stykki stjórnarskrá á svo stuttum tíma.

Síðan er í 11. gr. talað um „leit á manni“. Þá er farið að tala um mann, væntanlega í skilningnum karl og kona. Orðið maður er alltaf til vandræða því að það táknar annars vegar karl og konu og hins vegar karlmann. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða. (Gripið fram í: Kvenmann.)

Í 14. gr. stendur: „Hver og einn ber ábyrgð …“ Þá er allt í einu farið að tala um hvern og einn í staðinn fyrir að segja við eða álíka.

Svo er farið að tala um „aðgang almennings“ í 15. gr. Þar er talað um almenning. Það er spurning hvort túristar séu almenningur. Ég veit það ekki. Þetta finnst mér ekki vera nógu skýrt.

Í flestum tungumálum er til hugtak eins og „Mensch“ í þýsku, eða manneskja, og hefur ágæta þýðingu í stjórnarskrá því að Mensch er mannlegt, þ.e. manneskja. Við ættum að skoða það.

Ég er sjálfur hlynntastur því að hafa við, ég og okkur. Þjóðin þarf að vita þegar hún greiðir atkvæði um eitt stykki stjórnarskrá hvað af þessu á að gilda.