140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef í ræðum mínum reynt að fara yfir þær breytingartillögur sem hafa komið fram og máta þær eftir því sem við á við tillögur stjórnlagaráðs. Ein tillagnanna sem hafa komið fram er frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Vilt þú að stjórnvöld dragi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka? Já eða nei.“

Hér er um að ræða mjög mikilvæga spurningu sem tengist einhverju stærsta pólitíska máli sem er á vettvangi Alþingis og þjóðarinnar allrar þessa stundina og það er aðlögunarferlið að Evrópusambandinu.

Frú forseti. Ég mun nota orðið aðlögunarferli sem aldrei fyrr því að það kom fram í svari hæstv. forsætisráðherra hér fyrir skömmu að eitthvert ákveðið atriði sem spurt var um í þinginu kæmi aðlögunarferlinu ekkert við. Mér fannst það ágætisstaðfesting frá hæstv. forsætisráðherra um að um aðlögunarferli er að ræða.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir leggur til að þjóðin verði spurð um hvort hún vilji halda áfram því ferli sem hófst árið 2009. Það er mjög mikilvægt að þessi spurning nái inn í þennan spurningavagn, að við nýtum ferðina til að spyrja þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vilji halda þessu ferli áfram eða ekki. Eitt heitasta og erfiðasta mál okkar tíma gæti þannig fengið stimpil frá þjóðinni um hvernig við eigum að halda þessu áfram.

Annað sem ég held að muni gerist er að það mundi vekja mun meiri áhuga á þeirri atkvæðagreiðslu sem fyrirhuguð er ef slík spurning væri með í þessum vagni, ef spurt yrði um Evrópusambandið. Ég vona svo sannarlega að þegar fjallað verður um breytingartillögurnar og greidd verða atkvæði um þær nái þessi tillaga fram að ganga því að það er mjög mikilvægt að hún verði með. Þetta er grundvallarspurning fyrir stjórnarskrána og hið stjórnskipulega umhverfi sem við munum búa í næstu árin.

Tengsl þessarar spurningar við tillögu stjórnlagaráðs eru nokkrar. Má þar nefna meðal annars framsal ríkisvalds, þ.e. að við getum framselt meira vald en nokkru sinni fyrr yfir ákveðnum atriðum. Þetta snýst að sjálfsögðu um þjóðréttarlegar skuldbindingar líka sem við tökum þá í meira mæli á okkur eða göngumst undir. Þetta snýr að því að ekki verði hægt að leggja ákveðnar gerðir af samningum í þjóðaratkvæði, eins og t.d. Icesave-samninginn. Ef tillögur stjórnlagaráðs væru orðnar að stjórnarskrá hefði sá samningur ekki getað farið til þjóðarinnar svo eitthvað sé nefnt. Þannig er komin fram tillaga sem ætti að vera auðvelt að leggja til.

Einnig er vert að hafa í huga að fjölmargir þingmenn hafa sagt að þjóðin eigi að fá að segja sitt álit fyrir kosningar jafnvel, þ.e. alþingiskosningar. Ég held að þetta hljóti því að vera mörgum sem er þannig innanbrjósts kærkomið tækifæri og það þarf þá ekki að fara af stað aftur í einhvers konar spurningaferð þegar nær dregur þingkosningum.

Þetta er ein af þeim tillögum sem ég held að sé mjög mikilvægt að nái fram að ganga. Ég sakna þess að um þessa tillögu hafi ekki orðið meiri efnisleg umræða af hálfu þeirra sem standa að tillögu stjórnlagaráðs eða því ferli sem hér er á ferð, og ekki síst að heyra hvaða hugmyndir stjórnarmeirihlutinn hefur um tillöguna.

Í utanríkismálanefnd er tillaga svipaðs eðlis frá sama þingmanni. Þá tillögu hefur ekki verið hægt að afgreiða úr nefndinni enn þá, hún virðist ekki vera fullrædd þar, alla vega hefur talsmaður þess máls ekki lagt mikla áherslu að koma henni til umræðu í þinginu. En þegar á allt er litið er mjög mikilvægt að tillagan nái fram að ganga í komandi atkvæðagreiðslu.