140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í þessari fimm mínútna ræðu minni, sem líður ótrúlega hratt, að fara aðeins yfir nokkur atriði þessa máls.

Eins og tillagan liggur nú fyrir í breyttri mynd er lagt til að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögu stjórnlagaráðs fari fram eigi síðar en 20. október næstkomandi. Við þekkjum ferlið, hvernig þessu hefur verið snúið öllu á hvolf, dagsetningunni breytt í síðustu breytingartillögu, eftir það var síðan ákveðið í nefnd að setja af stað sérfræðingavinnu sem er þó ekki nefnd heldur hópur sérfræðinga sem fer yfir tillögur stjórnlagaráðs og rýnir þær. Allt á þetta að gerast á sama tíma og búið er að ákveða hvort af þjóðaratkvæðagreiðslunni verður eða ekki.

Mér finnst þessi vinnubrögð algjörlega óboðleg, frú forseti. Mér finnst í rauninni ótrúlegt að um það hafi t.d. ekki verið meiri umræða í fjölmiðlum hvernig farið er með þetta mál. Það er látið að því liggja að hér sé verið að gefa þjóðinni kost á því að kjósa og segja álit sitt á stjórnarskrá eða drögum að stjórnarskrá þegar í reynd liggur fyrir skýrsla og drög frá stjórnlagaráði sem flestir þeir sérfræðingar ef ekki allir sem fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komu gerðu miklar athugasemdir við. Við vitum, leyfi ég mér að fullyrða, að sú sérfræðivinna sem farin er af stað núna í hinni óformlegu nefnd mun leiða það í ljós að þessar tillögur, frumvarp stjórnlagaráðs, eru ekki tækar sem grunnur að nýrri stjórnarskrá vegna þess að í þessu frumvarpi er að finna innbyrðis ósamræmi milli greina sem mun gera það að verkum að dómaframkvæmd og annað verður erfitt eða ómögulegt. Ég tel algjörlega fráleitt að svona sé haldið á málum.

Ég velti fyrir mér hvað það er sem íslenska þjóðin á í raun og veru að greiða atkvæði um. Hvað gerist ef sérfræðingahópurinn skilar af sér með haustinu úrskurði um að þetta sé ómögulegt, að þetta gangi ekki sem grunnur að stjórnarskrá? Þá er búið að samþykkja á Alþingi eitthvert ferli sem gengur gegn þeirri ráðleggingu. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefur sagt að það sé í rauninni ekki verið að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs heldur verði kosið um hugmyndafræði stjórnlagaráðs, en það kemur ekki fram í spurningunum. Það er ekki spurt: Ert þú samþykkur hugmyndafræði stjórnlagaráðs í þessum drögum? Nei, það er spurt: Ert þú samþykkur því að frumvarp stjórnlagaráðs verði grunnurinn að nýrri stjórnarskrá?

Það sem við höfum verið að gagnrýna í öllu þessu ferli er að efnislega vinnan hefur ekki átt sér stað á þingi. Við höfum ekki sjálf rýnt þessar tillögur fyrir utan hv. þm. Pétur H. Blöndal sem er held ég eini þingmaðurinn í þingsögunni sem hefur skilað inn umsögn um þingmál. Þar rýndi hann allar þessar greinar. Ég veit að hv. þingmaður mun koma inn á það ef hann hefur ekki gert það nú þegar hver niðurstaða hans var í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Nú er ég fallin á tíma eina ferðina enn. Ég ætlaði að ræða nokkrar breytingartillögur þannig að ég óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.