Innheimtulög

Þriðjudaginn 22. maí 2012, kl. 18:03:54 (10781)


140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

innheimtulög.

779. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Það kemur í minn hlut að mæla fyrir frumvarpi sem góð þverpólitísk samstaða hefur tekist um í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að flytja á vorþinginu og lýtur að innheimtuaðgerðum í tengslum við vörslusviptingar.

Framganga við vörslusviptingar hefur í mörgum tilfellum, einkanlega eftir hrun, verið ólíðandi og í engu samræmi við gildandi rétt. Þar hafa aðilar tekið sér framkvæmdarvald eins og var á söguöld forðum og farið fram hjá eðlilegum aðfarar- og innheimtuleiðum með tilstyrk opinberra aðila og sótt lausamuni og eignir til fólks í andstöðu við gildandi rétt og jafnvel án vitundar þeirra sem lausamunina höfðu. Jafnvel vörslusviptu þeir meira en lausamunina sjálfa um leið, t.d. ýmsa persónulega muni við vörslusviptingar á bifreiðum.

Þetta hefur verið gert í skjóli þess að í ýmsum leigusamningum hafa verið stöðluð ákvæði lánardrottins við lántakann um það að heimilt væri að haldleggja hið leigða ef til vanskila kæmi. Þetta hafa ekki verið skilmálar sem samið hefur verið sérstaklega um heldur hafa þetta verið stöðluð einhliða ákvæði lánardrottna í garð lánveitenda og er ekki í samræmi við innheimtulög eða lög um aðfarir á Íslandi.

Þetta frumvarp er flutt í samvinnu við innanríkisráðuneyti og réttarfarsnefnd og lýtur að því að tekin verði af öll tvímæli um það að í gildissviði innheimtulaganna, 1. gr. sem afmarkar það, sé sérstaklega tekið fram að vörslusviptingar falli þar undir. Síðan bætist við innheimtulögin ný 6. gr. a þar sem gert er alveg skýrt að hvort sem er við fruminnheimtu eða milliinnheimtu þurfi samkomulag milli þess sem hefur fengið hlutinn lánaðan eða leigðan að liggja fyrir til að lánardrottinn geti tekið hlutinn ellegar geti lánardrottinn leitað til dómstóla og byggt þá á þeirri grein sem jafnan er byggt á í slíkum málum, 78. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, sem gerir ráð fyrir því að lánardrottnar geti leitað til héraðsdóms og fengið þá úrskurð um að þeir megi sækja viðkomandi hlut þegar þeir hafa fært sönnur á að þeir eigi réttmæta og lögmæta kröfu til hans.

Það hefur auðvitað gert vörslusviptingarnar hálfu verri nú undanfarið en fram að hruni að hér hafa því miður farið fram vörslusviptingar ítrekað á grundvelli ólögmætra krafna, bæði vegna þess að lánin hafi verið með ólögmætum hætti gengistryggð og eins hafa raunverulegir lánssamningar verið kallaðir leigusamningar. Það sem hefur gert þessa framgöngu í mörgum tilfellum enn verri en ella er ekki bara að farið hefur verið fram hjá dómstólum með vörslusviptingarnar heldur hafa lausamunir þannig verið teknir af fólki í andstöðu við gildandi rétt, ásamt með þeim lausamunum eins og bifreiðum hafa kannski verið teknir persónulegir munir, fatnaður og ýmsir munir sem hafa verið í bifreiðinni og lánardrottinn átti ekkert tilkall til. Ekki hefur þetta bara verið gert án vitundar þess sem hafði hlutinn að láni heldur jafnvel á grundvelli ólögmætra samninga um ólögmæta gengistryggingu eða leigusamninga sem nú hafa verið af dómstólum úrskurðaðir engir leigusamningar heldur hreinir og beinir lánssamningar.

Ég þakka fyrir þá góðu samvinnu sem hefur tekist um þetta mál. Mér finnst það vera gott dæmi um þarfamál sem þingmenn úr öllum flokkum geta sameinast um til að skýra og skerpa í gildandi löggjöf rétt neytenda gagnvart lánardrottnum sem eru alla jafna í miklu sterkari stöðu en hver einstakur neytandi. Þetta er mikilvægt og þingið hefði fyrr mátt grípa til varna fyrir neytendur í þessu en fagnaðarefni að það skuli gert.