140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við á ný frumvarp til laga sem heimila á Íslendingum að taka við styrkjum frá Evrópusambandinu allt að 5 þúsund milljónum. Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að gera aftur athugasemd við dagskrárvald forseta þingsins vegna þess að ég tel að þingsályktunartillaga um sama efni eigi að vera hér á dagskrá á undan frumvarpinu, því að í þingsályktunartillögunni kemur samningurinn fram og út á hvað hann gengur og frumvarpið er raunverulega byggt á þeim samningi, en hann var undirritaður 8. júlí 2011.

Hér er verið að koma þessu máli í gegnum þingið á ný með hálfgerðum bolabrögðum, því að frumvarpið getur ekki staðið eitt og sér og á að koma í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögunnar, þ.e. verði hún samþykkt. En það sem málið snýst um er að þingsályktunartillagan sem um ræðir er inni í utanríkismálanefnd en frumvarpið sem nú er á dagskrá var í efnahags- og viðskiptanefnd. Það muna allir hverjar málalyktir með þingsályktunartillöguna urðu, beitt var bolabrögðum og hún tekin út úr utanríkismálanefnd þegar ákveðnir aðilar forfölluðust og voru ekki á nefndarfundi.

Það kristallaðist svo hér í morgun að kominn er nýr meiri hluti í utanríkismálanefnd sem þýðir að hefði ekki verið beitt bolabrögðum hefði þessi þingsályktunartillaga um samninginn sjálfan að móttaka IPA-styrkina ekki náðst út úr hv. utanríkismálanefnd. Það er mjög einkennilegt að þetta mál skuli vera komið hér á dagskrá í frumvarpsformi vegna þess að eftir er að samþykkja grunninn, þ.e. að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara því að utanríkismálanefnd og þingið þarf fyrst að samþykkja þann samning sem þetta byggir á.

Í samningnum kemur til dæmis fram að Íslendingar afsala sér lögsögu þess dómsmáls sem kynni að rísa út af þessum fjárgreiðslum sem er mjög alvarlegt mál því að þarna er verið að framselja dómsvaldið úr landi. Mjög kunnuglegt, við munum eftir því í Icesave-málinu, en allt virðist leyfilegt hjá núverandi ríkisstjórn bara ef þessi umsókn fær að halda áfram.

Sá þingmaður sem talaði á undan mér taldi, og rifjaði upp orð hæstv. utanríkisráðherra, að ef þingið samþykkti ekki þessa IPA-styrki, þessa eingreiðslu í ríkissjóð, þyrfti ríkissjóður sjálfur að standa straum af þeim kostnaði. Ég spyr: Urðu ekki þau straumhvörf í þinginu í dag að ekki er lengur meiri hluti hér fyrir því að halda þessu umsóknarferli, sem sumir kalla aðlögunarferli, áfram? Hví er ekki fyrst látið reyna á það í þinginu með atkvæðagreiðslu og það mál tekið á dagskrá þegar ljóst er orðið hvernig það stendur, í stað þess að eyða dýrmætum tíma í það mál sem er hér til umræðu og svo það mál sem er hér á dagskrá á eftir þessu máli, þegar þetta er í slíkri óvissu? Þessi forgangsröðun í þinginu er mjög athyglisverð og þetta er allt mjög einkennilegt eins og annað sem kemur frá ríkisstjórninni.

Mig langar aðeins til að grípa niður í meirihlutaálit efnahags- og viðskiptanefndar en það er mjög athyglisvert af því að um IPA-styrkakerfið í löndum Evrópu sem hafa verið umsóknarríki hjá Evrópusambandinu hafa alltaf verið settar á fót sérstakar stofnanir sem halda utan um styrkina, sjá um bókhald vegna þeirra, hvert þeir renna og hvaða ríkisstofnanir fá þá en í nefndarálitinu segir:

„Vegna áratugalangrar þátttöku á innri markaði sambandsins í gegnum aðildina að EES- samningnum er gert ráð fyrir að aðstoð við Ísland verði takmörkuð í samanburði við önnur umsóknarríki. Ekki verði þörf á að setja upp nýjar stofnanir til að stýra aðstoðinni heldur verði gerður sérstakur fjármögnunarsamningur yfirvalda um hvert verkefni fyrir sig sem styrkt verður af sjóðnum.“

Nú er farið að tala um fjármögnunarsamninga um góðar og gegnar ríkisstofnanir hér á landi. Frú forseti. Mér finnst þetta mjög ógeðfellt orðalag. Það er eins og hér sé verið að fjármagna einhver tæki eða bíl fyrir ákveðið atvinnufyrirtæki. Nú heitir þetta að gerður verði sérstakur fjármögnunarsamningur fyrir hvert verkefni fyrir sig. Þarna kristallast hversu agnarsmá við erum sem þjóð og fámenn vegna þess að Evrópusambandið getur gert hér einhverja sérstaka fjármögnunarsamninga í stað þess að hafa þetta í einni stofnun.

Allt er þetta byggt upp á svokallaðri landsáætlun. Þegar landsáætlunin var til umræðu í þinginu harðneituðu stjórnarliðar því að það væri verið að gera landsáætlun vegna umsóknarinnar. Svona er blekkingaleikurinn að verða sífellt augljósari. Eins og ég hef nefnt hér áður kemur varla það mál fyrir þingið öðruvísi en það sé á einhvern hátt tengt umsókninni að Evrópusambandinu, þó að það komi hvergi fram í frumvarpstextum, þingsályktunartextum eða greinargerðum. Að því þurfa þingmenn að komast sjálfir.

Því spyr ég: Hvers vegna er verið að fela það hér á þjóðþinginu að þau mál sem koma hingað inn séu nánast öll upprunnin hjá Evrópusambandinu og lögð fram að kröfu Evrópusambandsins? Ég kalla þetta blekkingu, frú forseti, og vísa til laga um ráðherraábyrgð, að ráðherrar skuli upplýsa þing og þjóð um sannleikann í hverju máli fyrir sig.

Svo er nú það besta í þessu ferli öllu sem varðar IPA-styrkina að þingmenn Evrópusambandsins hafa gert þær athugasemdir að það sé fyrst og fremst litið á þessa styrki í Evrópusambandinu sem þróunarstyrki, sem fjármagnsaðstoð við umsóknarríki sem standa höllum fæti og eru fjárhagslega illa stödd. Það skiptir greinilega ekki máli fyrir hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að við hrunið var séð til þess að mikilvægar stofnanir voru skornar niður, stofnanir sem eiga að taka við þessum peningum, því að eins og hv. þm. Jón Bjarnason sagði: Hvað er hægt að gera við fjárhagslega hungraðar ríkisstofnanir annað en að dæla inn í þær fé? En því miður er það þannig að þetta fé kemur frá Evrópusambandinu og að vissu leyti má segja að það sé illa fengið fé vegna þess að þjóðin, landsmenn, 65% landsmanna, vilja ekki ganga þessa leið.

Ég hef verið óþreytandi við að leggja fram skriflegar fyrirspurnir til hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um þessa styrki í þau ár sem umsóknin hefur legið fyrir. Ég hef meðal annars spurt að því hvort IPA-styrkirnir verði endurkræfir af Evrópusambandinu ef umsóknin verður dregin til baka. Það hefur svo sem aldrei fengist nein niðurstaða í það. En mikið er á sig lagt, Evrópusambandið ætlar að dæla hingað 5 þúsund milljónum, taka það fjármagn frá öðrum ríkjum, því að kratisminn gengur út á það að eyða skattfé almennings í þeim ríkjum sem kratismi ríkir. Þannig er ferlið. Gangi Ísland í ESB komum við til með að þurfa að inna slíkar greiðslur af hendi til annarra umsóknarríkja. Þannig er sífellt verið að færa fjármagn á milli landa í þetta gæluverkefni.

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni að þetta frumvarp gengur allt út á ótakmarkað skattfrelsi og undanþágur frá opinberum gjöldum og ætla ekki að rifja þá ræðu upp. En ég vil benda á það og get ekki sleppt því á þeim stutta tíma sem ég hef til umráða nú að þetta skapar gríðarlegt ójafnvægi á milli íslenskra þegna og íslenskra verktakafyrirtækja og þeirra sem koma til með að vinna þessa vinnu hjá Evrópusambandinu. Hér er verið að veita skattfrelsi eins og um diplómatíska aðila væri að ræða og það er búið að teygja það hugtak yfir á verktakana. Þetta lítur illa út.

Ég geri aftur athugasemdir við að frumvarpið skuli vera tekið á undan í þessari umræðu vegna þess að ekki er búið að innleiða samninginn sem var undirskrifaður í júní 2011 og því er ekki búið að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á þessu máli. Að mínu mati er frumvarpið að því leyti ekki þingtækt.