140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi lokaspurningu hv. þingmanns hygg ég að svarið í henni felist meðal annars í því að möguleikar Íslands til þess að fá styrki samkvæmt IPA-áætluninni eru mun takmarkaðri en möguleikar landa á Balkanskaga t.d. eða í austurhluta Evrópu, eftir atvikum Tyrklandi, sem hafa sótt í þessa sjóði. Það er einmitt vegna þess að staða Íslands er allt önnur, innviðir samfélagsins eru allt aðrir og ósambærilegir við það sem var í Austur-Evrópu eftir fall Berlínarmúrsins þegar þau lönd voru að undirbúa umsóknir sínar og aðildarferli að Evrópusambandinu. Hið sama á auðvitað við um þau lönd í suðaustanverðri Evrópu sem nú leita eftir inngöngu, við getum tekið Króatíu sem dæmi, þannig að staðan er auðvitað allt önnur þar.

Ég ætla ekki spá mikið í hvað að baki býr en ég tek hins vegar undir það að með því að taka við styrkjum af þessu tagi í tengslum við aðildarviðræðurnar er Ísland og íslenska stjórnkerfið að tengjast Evrópusambandinu enn þá frekar en ella. Með því er verið að hnýta einhverja hnúta, styrkja og efla tengsl. Og hvað sem líður gæðum þeirra verkefna sem í hlut eiga, sem mörg eru eflaust verðug og skynsamleg og merkileg, er Evrópusambandið auðvitað að veita þessa styrki í þeim tilgangi að aðlaga lönd sambandinu.