140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort Evrópustofa er að hluta til fjármögnuð með IPA-styrkjum. Það kann að vera að hæstv. utanríkisráðherra, sem er hérna í salnum, þekki þá sögu betur og geti greint frá því í ræðu á eftir. (Gripið fram í.) Í mínum huga er aðalatriðið hins vegar ekki í hvaða verkefni IPA-styrkirnir eiga að renna, í mínum huga er kjarni málsins fólginn í því að þeir eru tengdir órjúfanlegum böndum aðildarferli og aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu, sem ég er andvígur. Ég á afskaplega auðvelt með að leggjast gegn þessu máli vegna þess að í þessu tilviki er auðvitað um að ræða part af stefnumörkun á sínum tíma meiri hlutans hér á Alþingi og ríkisstjórnar Íslands, sem ég er afar ósáttur við.

Það sem hefur hins vegar breyst frá sumrinu 2009 er að ýmsir sem þá, kannski af hálfum hug, studdu það að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu, hafa herst í andstöðu sinni. Það er hinn pólitíski veruleiki á Alþingi að æ fleiri sem greiddu atkvæði með aðildarumsókn sumarið 2009 eru annarrar skoðunar í dag og hafa fyrir því margar ástæður. Aðstæður hafa breyst á Íslandi, aðstæður hafa breyst í Evrópu. Við vitum miklu betur núna hvernig efnahagskreppan hefur komið niður á Evrópu, en sumir virtust álíta sumarið 2009 að efnahagskreppan væri eitthvert séríslenskt fyrirbrigði.

Margt hefur því breyst í umhverfinu og svo verður ekki hjá því litið að Evrópusambandið hefur með framkomu sinni gagnvart okkur Íslendingum í mörgum einstökum málefnum beinlínis ögrað okkur. Þá vakna að sjálfsögðu spurningar um hvort við eigum að standa í vingjarnlegum aðildarviðræðum við ríkjasamband sem stendur í stríði við okkur á öðrum vígstöðvum.