140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga sem er lagt fram í þeim tilgangi að veita Evrópusambandinu og þeim sem starfa fyrir það skattfrelsi á Íslandi. Frú forseti. Það er auðvitað ekki hægt annað við upphaf þessarar umræðu en að velta fyrir sér forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þessu máli og að það skuli sett hérna í forgang.

Ekki alls fyrir löngu var hæstv. forsætisráðherra með það sem helsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar að sameina ráðuneyti, að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið og mynda umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti. Undanfarna daga höfum við verið að ræða það að senda í þjóðaratkvæðagreiðslu frekar óljósar spurningar sem tengjast stjórnarskrá Íslands. Það var forgangsatriði hjá ríkisstjórninni og síðan kemur að þessu máli hér sem felur það í sér að veita Evrópusambandinu algjört skattfrelsi á Íslandi.

Maður veltir því óneitanlega fyrir sér þegar ríkisstjórnin talar um norræna velferð, þegar hún talar um heimilin og fyrirtækin í landinu, hvort þetta séu málin sem heimilin og fyrirtækin séu að kalla eftir. Það er auðvitað gott og gilt að það sé þó verið að lækka skatta á einhverja þegna þessa samfélags, ekki er verið að lækka skatta á almenning og ekki er verið að lækka skatta á fyrirtæki, en þetta frumvarp gerir, eins og áður sagði, ráð fyrir því að veita allsherjarskattafslátt til handa þeim sem starfa fyrir Evrópusambandið á Íslandi. Þetta eru nokkuð víðtækar breytingar sem verið er að leggja til, eins og kemur fram í frumvarpinu, og það vekur athygli að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir ekki nokkrar athugasemdir eða tillögur að breytingum hvað þetta snertir.

Mig langar, með leyfi forseta, að fara hér aðeins yfir og nefna nokkur atriði þar sem ætlunin er að létta sköttum algjörlega af til handa Evrópusambandinu, og ég vitna hér í lagafrumvarpið:

„Við innflutning ESB-verktaka á vörum“ — það eru sem sagt undanþegnir skattar — „sem fjármagnaðar eru af ESB-samningi skal fella niður aðflutningsgjöld.“

„ESB-verktaki sem selur vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skal vera undanþeginn virðisaukaskatti.“

„Einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, eru ESB-verktakar og selja vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skulu undanþegnir skattskyldu …“

„Ríkisskattstjóra er heimilt að taka til greina skriflega umsókn ESB-verktaka um endurgreiðslu, að hluta eða öllu leyti, á staðgreiðslu hans …“

Persónulegar eigur einstaklinga, og nánustu fjölskyldumeðlima þeirra, sem starfa samkvæmt ESB-samningi — mönnum er heimilt að flytja þær hingað til lands og skulu þær undanþegnir öllum tollum, virðisaukaskatti og öðrum aðflutningsgjöldum.

Allir samningar sem tengjast með einum eða öðrum hætti ESB-samningi skulu undanþegnir stimplun og stimpilgjaldi.

Frú forseti. Þarna er auðvitað um mjög víðtækar skattafsláttartillögur að ræða og maður veltir fyrir sér hvað vaki fyrir stjórn sem kennir sig við norræna velferð að veita Evrópusambandinu og þeim sem starfa fyrir það svo víðtækar undanþágur frá íslenskri skattalöggjöf, að á sama tíma og skattur er hækkaður á almenning og fyrirtæki, skattar hafa verið hækkaðir á helstu neysluvörur eins og eldsneyti o.fl., á að létta sköttum af Evrópusambandinu og þeim einstaklingum sem starfa fyrir það.

Frú forseti. Ég held að í því máli sem við ræðum hér birtist mjög glögglega forgangsröðun ríkisstjórnar hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Við skulum ekki gleyma því að þetta mál var lagt fram af hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Hann lagði þetta mál fram í þinginu þrátt fyrir að … (Gripið fram í.) — Frú forseti. Utanríkisráðherra er að verða eitthvað órór hér í sæti sínu. — Hæstv. ráðherra og formaður Vinstri grænna lagði þetta mál fram en svo lætur hæstv. ráðherra auðvitað ekki sjá sig eða tekur þátt í umræðunni.

Bent hefur verið bent á það, m.a. af hv. þm. Jóni Bjarnasyni við 1. umr., að þetta mál væri liður í aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu og það kemur mjög skýrt fram. Það hefur komið fram í umfjöllun um þetta mál og hefur komið fram hjá þeim fulltrúum Evrópusambandsins sem tjá sig almennt um þessi mál að þetta sé liður í aðlögunarferlinu, menn fái hér fjármuni til aðlögunar og ESB-verktökum sé meðal annars ætlað að vinna að þeirri aðlögun.

Þingsályktunartillagan sem lögð var fram hér sumarið 2009 þess efnis að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu gerði ekki ráð fyrir því að tekið yrði við styrkjum til aðlögunar, svokölluðum IPA-styrkjum. Hún gerði heldur ekki ráð fyrir því að veita Evrópusambandinu algjört skattfrelsi hér á landi. Síðan verða menn varir við það þegar á hólminn er komið. Ástæðan fyrir því var sú að á þessum tíma var verið að reyna að selja þjóðinni það að um væri að ræða einhvers konar aðildarviðræður. Þetta snerist um að sjá hvað væri í boði, að senda samninganefnd til Brussel til að fá þar hlaðborð og menn gætu svo valið það af hlaðborðinu sem þeim hentaði og það sem ekki hentaði væri hægt að láta eftir liggja.

En annað kom á daginn. Það hefur komið á daginn að þetta er alltaf að verða dýpra og dýpra aðlögunarferli eins og Evrópusambandið sjálft segir þegar það fjallar um aðildarviðræður, að orðið aðildarviðræður geti verið villandi, nær sé að tala um aðlögun þar sem Evrópusambandið aðstoði umsóknarríki við að aðlaga sig að sambandinu. Þetta hafi breyst eftir Austur-Evrópa gekk í Evrópusambandið, þá hafi þessu verið breytt í aðlögunarferli og liður í því aðlögunarferli eru IPA-styrkir sem ætlaðir eru til aðlögunar. En af því að reynt var að selja þjóðinni það sumarið 2009 að það yrði að fara í einhvers konar aðildarviðræður, einhvers konar viðræður og samningaviðræður, var auðvitað ekki hægt að hafa heimild til að taka við styrkjum við aðlögun inni í þeirri þingsályktunartillögu. Svo kemur á daginn að menn töldu sig með einhverju minnisblaði eða slíku hafa heimild til að taka við þessum styrkjum til aðlögunar, en það var auðvitað engin heimild fyrir því. Ríkisstjórn Íslands hefur enga heimild til þess að taka við styrkjum til aðlögunar og hún hefur enga heimild til þess að veita skattfrelsi til Evrópusambandsins vegna starfsemi sem það er með hér á landi, m.a. vegna þessara styrkja. Þess vegna er verið að leggja þetta mál fram og þetta er ein sönnun þess að um er að ræða hreinar og klárar aðlögunarviðræður.

Það er hægt að sjá þetta ef lesin eru gögn frá Evrópusambandinu sjálfu, m.a. um Króatíu. Þar var til að mynda samningakafla um landbúnaðarmál ekki lokað fyrr en allt ESB-kerfi landbúnaðarins hafði verið innleitt í Króatíu. Króatía varð að vera farin að virka sem Evrópuríki, ESB-ríki, öll tollalöggjöfin, allt stofnanakerfi Evrópusambandsins sem er gríðarlega umfangsmikið, enda mikil skriffinnska í Evrópusambandinu, þetta varð allt að vera farið að virka áður en samningakaflanum var lokað. Eftir að samningakaflanum er lokað er samningurinn staðfestur af öllum aðildarríkjum og síðan staðfestur af ríkisstjórn umsóknarríkis og svo í þjóðaratkvæðagreiðslu. Króatía var í rauninni komin inn í Evrópusambandið áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram. Þegar maður sá viðtöl við marga í Króatíu í kringum þá þjóðaratkvæðagreiðslu þá sögðu menn: Ja, við erum á móti því að ganga í Evrópusambandið en það skiptir litlu því að við höfum undanfarin ár verið að innleiða allt regluverk Evrópusambandsins vegna þessara aðlögunarviðræðna.

Frú forseti. Það er auðvitað þetta sem verið er að gera hér á landi og tilgangur þess máls sem við ræðum hér er að taka við þessum styrkjum sem smurningu á Evrópusambandsaðlögunarferðina. Það vekur sérstaka athygli að æ ofan í æ skuli annar stjórnarflokkurinn, sem segist vera á móti Evrópusambandsaðild, taka þátt í því aðlögunarferli sem verið er að bera hér á borð. Þetta mál er engin undantekning því að undir nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita meðal annars hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þuríður Backman. Það vekur auðvitað enga athygli að sjá þarna Samfylkinguna því að þetta mál er eins og biblía fyrir þingflokki þeirra. En það vekur athygli að þingflokkur Vinstri grænna, sem á tyllidögum segist vera á móti Evrópusambandsaðild eða réttara sagt þegar það hentar, skuli ítrekað taka þátt í því að flytja þetta mál, að hann skuli taka þátt í því að létta sköttum af Evrópusambandinu hér á landi og taka við milljörðum til aðlögunar.

Maður veltir því líka fyrir sér: Hvaða vilyrði er búið að gefa í Evrópusambandinu fyrir samþykkt þessa máls og hefur ríkisstjórnin ekki tekið á móti styrkjum hér síðasta árið án þess að hafa haft lagalega heimild til þess? Í fjárlögum þessa árs er vitnað til IPA-styrkja sem ætlunin er að ríkisstjórnin taki við án þess að hún hafi formlega lagalega heimild til að þiggja slíka styrki. Enn á ný horfum við upp á það að ríkisstjórnin telur að Alþingi Íslendinga skipti litlu í þessu máli. Það skiptir engu máli þótt ekki sé komin lagaleg heimild fyrir því að taka við slíkum styrkjum, það skiptir engu máli, þeir verða samþykktir. Svo er skrúfstykkið sett á allan hópinn. (Gripið fram í: Rétt.)

Við sáum það svo glögglega þegar þingsályktunartillaga sem lögð er fram samhliða þessu máli var tekin út úr utanríkismálanefnd þar sem eina leiðin til að ná henni þaðan út var að gera það með klækjabrögðum vegna þess að réttkjörnir fulltrúar í nefndina voru eilítið of seinir á fund. Það er alþekkt, frú forseti, svo það sé upplýst, það er alþekkt hér í þinginu ef vitað er að menn verða eilítið of seinir á fund að þá er ekki vaninn að taka málin út, drífa sig í að taka þau út áður en viðkomandi einstaklingur kemur á fundinn. Og tveimur mínútum eftir að búið var að taka málið út kom í ljós að ekki var meiri hluti í utanríkismálanefnd fyrir málinu, ekki frekar en það er ekki meiri hluti í utanríkismálanefnd fyrir þessu aðlögunarferli eins og kom fram í morgun þegar lögð var fram bókun í utanríkismálanefnd.

Frú forseti. Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur. Og að þetta fólk skuli svo voga sér að koma upp í ræðustól á Alþingi og tala um ný og breytt og bætt vinnubrögð, að þingmenn sem haga sér með þessum hætti skuli tala um ný og bætt vinnubrögð. Í fyrsta lagi að samþykkja það í fjárlögum að taka við styrkjum án þess að fyrir því liggi lagaleg heimild, sem við erum að ræða hér. Í öðru lagi að skrifa jafnvel undir einhverja pappíra og samninga þessa efnis úti í Brussel. Og í þriðja lagi að það þurfi klækjabrögð til að ná málum út úr nefndum hér. Svona vinnubrögð geta ekki gengið og eru ekki sæmandi á nokkurn hátt. En þetta þekkjum við þingmenn, þetta sjáum við ítrekað hjá sitjandi ríkisstjórn og sérstaklega forustumönnum hennar. Það skiptir engu máli hvernig málum er komið í gegnum þingið, það er bara gert á hnefanum. Þetta á ekkert skylt við þau vinnubrögð sem menn eru að reyna að innleiða á Alþingi, a.m.k. margir þeirra sem voru kjörnir hingað í síðustu þingkosningum. Þetta eru vinnubrögð gamla tímans.

Herra forseti. Það er auðvitað ekki hægt að fjalla um þessi mál öðruvísi en að víkja aðeins að ástandinu í Evrópusambandinu. Nú er ástandið í Suður-Evrópu með þeim hætti að fregnir sem berast þaðan eru ekki mjög jákvæðar. Þar er vaxandi fátækt, við horfum upp á það í Grikklandi og á Spáni, vaxandi atvinnuleysi, vaxandi fátækt og bankar í gríðarlegum vanda. Fjármunir streyma út úr bönkunum og það er eiginlega að verða óeirðaástand, ekki hægt að mynda ríkisstjórn í Grikkland og það veit enginn hvernig evran fer. Það er ekki ósennilegt að eitthvað af ríkjum Suður-Evrópu muni yfirgefa evrusamstarfið og allt hefur þetta í för með sér gríðarlegan samdrátt, sérstaklega í Suður- og Austur-Evrópu, ástandið er betra í Þýskalandi, Hollandi og löndunum þar í kring. Því er auðvitað ekki hægt annað en að velta því fyrir sér hvað vaki fyrir Evrópusambandinu með að setja milljarða til Íslands til verkefna, til aðlögunar að regluverki sambandsins. Maður skyldi ætla að þessum fjármunum væri betur varið í að deila þeim til grísks almennings sem í dag horfir fram á fátækt og því um líkt, horfir upp á það að Evrópusambandið gerir kröfu til þess að fjármálastofnanir, opinberar byggingar, samgöngumannvirki, hafnarmannvirki, alþjóðaflugvöllurinn í Aþenu, orkufyrirtæki og fleira eru einkavædd. Til hvers? Til þess að bjarga evrópskum bönkum.

Ég held að almenningi í þessum löndum veitti ekki af þessum fjármunum. Ég held að það væri rétt, sérstaklega hjá stjórnmálaflokki eins og Samfylkingunni sem reynir á tyllidögum að tala um sig sem alþjóðlega sinnaðan flokk og velferðarflokk, ég held ég að það væri rétt hjá þessum ágæta stjórnmálaflokki að beina þeim tilmælum til viðkomandi að þessum fjármunum verði frekar varið til handa grískum almenningi. En það er auðvitað ekki svo. Þess í stað er tekið við milljörðum til aðlögunar íslensks regluverks, aðlögunar sem íslensk þjóð hefur engan áhuga á, aðlögunar sem meiri hluti Alþingis hefur líklega engan áhuga á heldur, (Gripið fram í: Rétt) aðlögunarferlis sem engin pólitísk forusta er fyrir og skattafsláttum sem ég efast um að almenningur hafi áhuga á að veita Evrópusambandinu á Íslandi á sama tíma og menn horfa er upp á skattahækkanir.

Herra forseti. Þetta mál má ekki fara í gegnum þingið. Það má alls ekki samþykkja milljarða til aðlögunar íslensks samfélags að Evrópusambandinu og skattafslátt til handa Evrópusambandinu hér á landi. Það hefur á engan hátt verið tekið á þeirri gagnrýni sem lögð var fram um þetta mál. Það hefur ekki verið tekið á skekktri samkeppnisstöðu Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu og ekki heldur þeirri staðreynd að með þessu erum við í rauninni að hefja hina eiginlegu aðlögun.

Það er með ólíkindum, svo að ég segi það aftur, herra forseti, að horfa upp á hvernig flokkur eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem fór hér fram fyrir síðustu þingkosningar og sagði eða forusta þess þingflokks, að það yrði ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu. Hv. þingmaður og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu kvöldinu fyrir kosningar. Svo horfum við upp á hvert málið á fætur öðru sem tengist aðlöguninni, gefið er eftir gagnvart Evrópusambandinu, og þetta er held ég kornið sem hlýtur að fylla mælinn hjá mörgum þegar hér á með formlegum hætti að fara að taka við milljörðum til aðlögunar og veita Evrópusambandinu skattafslátt um leið og skattur er hækkaður á almenning og fyrirtæki í landinu. Þetta getur ekki gengið, herra forseti.