140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins varðandi ágæta ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum málum, bæði hvað varðar Evrópusambandsumsóknina og eins þessa tilgreindu IPA-styrki, er alveg ljóst að stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kveður skýrt á um andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið. Fyrir síðustu kosningar var því líka lýst yfir að flokkurinn beitti sér ekki fyrir aðild að Evrópusambandinu þannig að það sé ljóst. Sá sem hér stendur og hér talar var mjög einarður í þeirri afstöðu í aðdraganda kosninganna enda er það í samræmi við stefnu flokksins og áherslur.

Varðandi beinlínis umræðuna um þessa IPA-styrki, aðlögunarstyrki, er hárrétt hjá hv. þingmanni að ekki var kveðið skýrt á um það í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var af Alþingi þegar aðildarumsóknin var send og þess vegna þarf eftir á að sækja sérstaklega um heimild Alþingis til að mega ganga til samninga um þessa aðlögunarstyrki og veita jafnframt þetta skattfrelsi.

Til að taka það líka hér skýrt fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð ályktaði meðal annars á flokksráðsfundi 20.11. 2010, með leyfi forseta:

„Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrir fram að reglum Evrópusambandsins. Ekki verði heldur tekið við styrkjum (Forseti hringir.) sem beinlínis eiga að undirbúa aðild.“

Stefna og ályktanir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru því alveg skýrar (Forseti hringir.) og eftir þeim hef ég starfað.