140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrri spurninguna liggur alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin hefur ekki haft lagaheimild fyrir þeim styrkjum sem hún hefur tekið við til aðlögunarverkefna. Ef hún hefði haft heimild til þess hefði ekki þurft það frumvarp sem við ræðum hér.

Þegar þessir fjármunir voru settir inn í fjárlög á sínum tíma, m.a. við síðustu fjárlög sem við störfum núna eftir, var engin lagaheimild til að setja slíkt inn. Þegar menn setja slíka fjármuni inn í fjárlög án þess að lagaheimild sé til að taka við þeim styður það það að Alþingi sé orðið, eins og einhver kallaði, stimpilpúði framkvæmdarvaldsins. Hver er virðing Alþingis þegar menn hugsa með þessum hætti? Hún er auðvitað ekki mikil. Það liggur fyrir að ekki er heimild til að taka við þessum fjármunum og þess vegna erum við að ræða þetta mál.

Varðandi seinni spurninguna og það sem segir í nefndarálitinu og hv. þingmaður kom inn á, er alveg ljóst að Ísland er í aðlögunarferli. Það er það sem er í boði. Það er ekkert til sem heitir einfaldar samningaviðræður við Evrópusambandið. Þetta er aðlögunarferli þar sem Evrópusambandið aðstoðar Íslendinga við að laga regluverk sitt að Evrópusambandinu. Eins og embættismenn, Evrópuþingmenn og fleiri hafa sagt: Það eruð þið sem sóttuð um aðild að Evrópusambandinu, við sóttum ekki um aðild að Íslandi. Og þannig virkar þetta. Við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hluti af því ferli er að laga regluverk okkar að Evrópusambandinu.

Við sjáum hér margvísleg mál og margvíslegar breytingar sem á einn eða annan veg eru hugsuð út frá Evrópusambandinu og er ágreiningur um, til að mynda um fækkun ráðuneyta og svartfuglaveiðar. Við getum tekið fleiri mál, bæði stór og lítil, sem með einum eða öðrum hætti eru hluti af þeirri aðlögun. Það er ótrúlegt hvernig utanríkisráðherra kemst ítrekað upp með það að reyna að segja þjóðinni að hvítt sé svart.