140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég vil taka undir með hv. þingmanni hvað þetta snertir. 8. gr. frumvarpsins er mjög athyglisverð svo ekki sé fastar að orði kveðið, um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð er kveður nánar á um framkvæmd laganna.

Þetta er sjálfstæð lagagrein í frumvarpinu. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um að maður er farinn að sjá allt of mikið af þessu. Við höfum kannski ekki samanburðinn við fyrri ár en það er ljóst að ekki hefur dregið úr þessu og að með slíkum hugsunarhætti er staða Alþingis ekki styrkt. Þarna er fyrst og fremst verið að hugsa um að styrkja stöðu framkvæmdarvaldsins. Eins og allir vita setur Alþingi lög en það er ráðherrann sjálfur sem setur reglugerðirnar og hann þarf ekki að vera í samráði við Alþingi þegar kemur að því. Ríkisstjórnin þarf ekkert samráð við Alþingi þegar hún setur reglugerðir.

Þetta er að verða mjög hvimleitt. Við sjáum hvernig hæstv. ríkisstjórn, sérstaklega forustumenn ríkisstjórnarinnar, er farin að líta á Alþingi sem einhvers konar stimpilpúða eða færiband, það sé hægt að henda málunum inn til Alþingis rétt fyrir þinglok. Málin komu hérna í bílförmum rétt fyrir páska og síðan er ætlast til þess að Alþingi afgreiði þau á færibandi, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það sjálf. Hún sagði fljótlega eftir páska að það væri alvanalegt að Alþingi afgreiddi mál á færibandi á síðustu dögum þingsins. Býst einhver við nýjum vinnubrögðum frá ráðherra sem talar svoleiðis og hugsar svoleiðis? Það held ég ekki. (Gripið fram í.)