140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:57]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að menn viðurkenni hvað er raunverulega á ferðinni og ræði það síðan heiðarlega. Þessi umræða sem við erum með hér um IPA-styrki er til að staðfesta þá heimild að hafa sótt um og jafnvel gert ráð fyrir á fjárlögum fjármagni sem ekki var orðin heimild fyrir. Ég minni á að meðal annars á þeim forsendum hafnaði ég því að stofnanir míns ráðuneytis sæktu um þessa styrki en auðvitað gat ég ekki haft önnur áhrif á stofnanir annarra ráðuneyta en að vísa til stefnu míns flokks um að ekki ætti að taka við þessum IPA-styrkjum.

Þess vegna furðar mig mjög að það skuli vera búið að efna til umsókna um IPA-styrkina, þessa þróunarstyrki, áður en Alþingi er búið að veita heimild til að ganga til slíkra samninga.

Það er eitt sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um til viðbótar: Hefur þingmaðurinn séð hver fylgir þessum styrkjum eftir? Hafa menn gert sér grein fyrir því hvað gerist ef Alþingi samþykkir að taka þessa styrki, sem ég vona að verði ekki, og samþykki svo hálfu ári seinna að krefjast þess af ríkisstjórninni að afturkalla umsóknina eða þá að það verður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að þessari umsókn um aðild að Evrópusambandinu skuli hætt? Hvar standa þá þessir IPA-styrkir? Staða þeirra sem vilja annars vegar hætta viðræðum og hins vegar taka við IPA-styrkjum hlýtur að vera mjög sérstæð.

Ég legg áherslu á að við höfnum því að taka (Forseti hringir.) slíkt mútufé frá Evrópusambandinu sem þessir peningar eru og að við höfnum þessu frumvarpi, herra forseti.