Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 11:34:52 (11218)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að Alþingi hefur áður komið nálægt þessu máli og gerði það á grundvelli álits samgöngunefndar sem hv. þingmaður kannast við vegna þess að hann var formaður nefndarinnar á þeim tíma. Í því áliti segir, með leyfi forseta, að það sé „skilningur nefndarinnar að engin bein ábyrgð verði felld á ríkissjóð samkvæmt ákvæðum frumvarpsins“. Þar er átt við það frumvarp sem þá var í gangi og fjallaði m.a. um Vaðlaheiðargöng. Síðar áréttar nefndin þennan skilning sinn og tekur fram að hann sé „veruleg forsenda fyrir því áliti hennar sem hér er sett fram.“ Þetta var grundvöllur umfjöllunar Alþingis á sínum tíma

Nú er ekki um þetta að ræða lengur og mig langar að spyrja fyrrverandi formann samgöngunefndar hvað hafi valdið því að hann hefur skipt um skoðun í þessu efni.