Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 11:44:49 (11226)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:44]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hér hefur aðeins verið talað um heyrn og ég verð að upplýsa þingheim um að ég er með alveg stórundarlega hellu fyrir eyrunum þannig að ég heyri mjög illa. Ég leyfi mér því að beina því til forseta að biðja þingmenn um að tala hátt og skýrt.

Mig langaði að spyrja, eins og aðrir hér, hv. þingmann Norðausturkjördæmis, Björn Val Gíslason, að því hvernig hann raði í forgangsröð þessum þrennum jarðgöngum, Vaðlaheiðargöngum, Norðfjarðargöngum og Dýrafjarðargöngum, á hvaða forsendum hann raði þeim í tiltekna röð og hvers vegna hann taki eina framkvæmd fram yfir aðra. Finnst honum til dæmis að Hjallaháls eigi jafnvel að fara fram fyrir einhverjar af þessum framkvæmdum eða allar eða einhver önnur mannaflsfrekari og meira atvinnuskapandi verkefni en jarðgangagerð? (Gripið fram í: Já.) Finnst hv. þingmanni ekki eðlilegt og nauðsynlegt að ræða gerð Vaðlaheiðarganga í samhengi við önnur samgöngumannvirki, (Forseti hringir.) önnur plön um samgöngubætur í landinu? (Forseti hringir.) Hlýtur það ekki að vera eðlilegt og nauðsynlegt fyrir okkur öll (Forseti hringir.) að sjá heildarmyndina í þessum efnum?

(Forseti (SIJ): Forseti vill ítreka að ræðutími er aðeins ein mínúta þegar svo margir hafa óskað eftir að veita andsvar.)