Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 11:49:05 (11229)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég reyni að svara þeim spurningum sem til mín er beint vegna þess máls sem hér er til umfjöllunar, þ.e. hvort heimila eigi fjármálaráðherra að veita þessa ábyrgð því að um það snýst málið.

Það liggur ljóst fyrir að framkvæmd við Vaðlaheiðargöng er eingöngu gerleg ef ráðist er í hana með þeim hætti sem hér er lagt til að verði gert, þ.e. að hún verði tekin út fyrir vegáætlun og hafi ekki áhrif á þá áætlun að öðru leyti. Það er sannfæring mín að svo verði. (PHB: Er ekki nóg af peningum?) Að öðrum kosti hefði ég ekki lagt til að frumvarpið yrði samþykkt.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal gjammar hér fram í og spyr hvort ekki sé nóg til af peningum. Nei, það er ástæðan fyrir því að fara þessa leið, hv. þm. Pétur Blöndal. Þið sóuðuð öllum fjármununum okkar.