Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 12:20:32 (11231)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:20]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni góða yfirferð yfir málið. Það hafa vaknað mjög margar spurningar um þetta mál, jafnvel fleiri en tölu verður á komið.

Ég vil spyrja hv. þingmann í andsvari mínu um meðferð fjárlaganefndar á áliti Ríkisábyrgðasjóðs, en ég tel að fjárlaganefnd sýni af sér ábyrgðarleysi í þessu máli. Nú er Ríkisábyrgðasjóður sá fagaðili fyrir framkvæmdarvaldið og Alþingi sem á að veita faglegar umsagnir um ríkisábyrgðir, meðal annars vegna fjárlaga. Ríkisábyrgðasjóður varaði á sínum tíma við Farice. Hvar er Farice núna? Ríkisábyrgðasjóður varaði á sínum tíma við breytingum á Íbúðalánasjóði og fjármögnun hans. Hvernig fór með þá fjármögnun? 33 milljarða kr. bakreikningur í fyrra. (Gripið fram í.) Ríkisábyrgðasjóður varaði við sölu á Lánasjóði landbúnaðarins til Landsbanka Íslands. Hversu hár var sá reikningur í fyrra?

Þess vegna langar mig að beina því til hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar: Finnst honum sem fjárlaganefndarmanni frá því að hann kom inn á þing að fjárlaganefnd hafi í raun lært eitthvað af hruninu og af öllum þeim vandamálum sem hafa komið upp, þegar horft er sérstaklega til þessa máls um Vaðlaheiðargöng? Gæti hann hugsað sér að fjárlaganefnd tæki málið aftur til sín og reyndi ef til vill afgreiða það með sóma þannig að farið yrði í þetta einfaldlega sem hreina ríkisframkvæmd sem yrði fjármögnuð með veggjöldum í stað þess að fara þessa fjallabaksleið? Með þeim aðferðum sem beitt er við að setja málið fram jaðrar þessi leið einfaldlega við það að vera ósiðleg.