Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 12:22:35 (11232)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir orð hv. þingmanns um að meðferð hv. fjárlaganefndar hafi verið ábyrgðarlaus. Eins og hv. þingmaður þekkir kallaði nefndin eftir þeim gestum sem hún taldi að þyrfti að gera og einnig komu ábendingar um fleiri gesti frá einstaka nefndarmönnum og við þeim öllum var orðið. Það er því ekkert út á meðferðina að setja að mínu mati.

En mér finnst þetta dálítið umhugsunarvert sem hv. þingmaður bendir á. Reyndar er það niðurstaðan í nefndaráliti okkar hv. þm. Illuga Gunnarssonar að hér sé um að ræða ríkisframkvæmd. Ég leit á það sem verkefni fjárlaganefndar að hún færi yfir málið og spyrði: Stenst þetta verkefni að vera flokkað sem einkaframkvæmd eða ríkisframkvæmd? Niðurstaða mín er alveg skýr, aðrir kunna að vera ósammála því og eru það greinilega og færa fyrir því efnisleg rök, allt í fína lagi með það.

Mér fyndist eðlileg framkvæmd á þessu máli vera, bæði fyrir og eftir, og það er í raun og veru niðurstaða álits okkar, að vísa málinu aftur til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og hún fyndi verkefninu stað í samgönguáætlun að teknu tilliti til þess að á svæðinu er greiðsluvilji til að fara í framkvæmdina. Það vegur eitthvað á vogarskálunum. Síðan legði samgöngunefnd, sem er fagnefnd þingsins, á vogarskálarnar mikilvægi framkvæmdarinnar út frá þeim forsendum og rökum sem hv. nefnd setur á hverjum tíma við gerð samgönguáætlunar. Það tel ég að væru eðlileg vinnubrögð.

Mín niðurstaða er þessi: Verkefnið getur aldrei verið flokkað sem einkaframkvæmd, þetta er ríkisverkefni. Þess vegna á það að fara aftur inn til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og ég treysti nefndinni algjörlega til að raða því og finna því stað í samgönguáætlun að teknu tilliti til kosta og galla verksins þannig að það fari inn í eðlilega framkvæmdaáætlun eins og önnur samgönguverkefni.