Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 13:41:09 (11246)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil fyrst af öllu segja að öll erum við fulltrúar einhverra kjördæma og ég legg ekkert samasemmerki á milli þess hvernig við vinnum og hvaðan við komum. Auðvitað ber alltaf með einhverjum hætti á því, en það er reynt að gera þetta mál að hreinu kjördæmamáli. Ég benti á að við upphaf þessa máls inni á þinginu var það samþykkt með 54 samhljóða atkvæðum, níu þingmenn voru fjarverandi. Það var mikill og einbeittur vilji Alþingis og samstaða mikil um að koma þessu verki með einhverjum hætti áfram.

Ég ber enga ábyrgð á gerðum hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra eða annarra ráðherra í ríkisstjórn. Ef ég mætti ráða væru þeir ekki að leggja þetta mál fram heldur einhver allt annar. Afstaða mín til þessa verkefnis er klár og skýr og hefur verið mjög lengi, og ég tel mjög brýnt, af því að hér eru nefnd einhver atriði um röðun dagskrár, að mál sem þingið hefur dregið frá árinu 2008–2009 komist til afgreiðslu. (Forseti hringir.) Það hefur eldri sögu en mörg önnur mál sem vilji manna stendur til að (Forseti hringir.) keyra í gegnum þingið.