Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 13:49:29 (11252)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið fyrst af öllu og svara því til að mín sýn til þess hvers vegna fjárlaganefnd er með þetta mál en ekki umhverfis- og samgöngunefnd er einfaldlega sú að þingið vísaði málinu þangað. Eðlilega vinnur fjárlaganefnd sín verk sem þingið beinir til hennar. (Gripið fram í.)

Ef hv. fyrrverandi samgönguráðherra og núverandi hæstv. velferðarráðherra gæti fært sig úr salnum þannig að það væri friður til að svara hv. þm. Merði Árnasyni væri það vel þegið.

(Forseti (RR): Einn fund í salnum.)

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort fjárlaganefnd hefði sinnt þeirri ósk sem kom frá umhverfis- og samgöngunefnd um að skoða hvort veggjöldin stæðu undir öllum kostnaði og það félli engin ábyrgð á ríkissjóð, þá tel ég svo vera. Við sitjum hins vegar uppi með þá stöðu í þessu máli að skoðanir þeirra sem gefa okkur álit stangast á. Niðurstaða okkar í fjárlaganefnd (Forseti hringir.) sem mælum með samþykkt þessa frumvarps var einfaldlega sú að treysta öðrum hluta álitsgjafanna fremur en þeim sem við (Forseti hringir.) tökum ekki mark á, ef þetta svarar hv. þingmanni.