Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 14:22:15 (11273)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:22]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil beina nokkrum spurningum til hv. formanns fjárlaganefndar. Það að vera formaður fjárlaganefndar Alþingis Íslendinga er eitt af ábyrgðarmeiri störfum sem hægt er að taka sér fyrir hendur hér á Alþingi. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að hv. þingmaður skuli vera með á því nefndaráliti sem hér liggur fyrir því að eins og það blasir við mér er einfaldlega töluvert mikið af rangfærslum og villandi upplýsingum í því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um álit Ríkisábyrgðasjóðs. Nú liggur fyrir að Ríkisábyrgðasjóður varaði á sínum tíma við Farice, varaði við breytingum á Íbúðalánasjóði, sem hafa kostað okkur 33 milljarða hingað til, varaði við sölu á Lánasjóði landbúnaðarins til Landsbanka Íslands, sem kostaði okkur milljarða í fyrra. Allt þetta hefur gengið eftir og nú varar sjóðurinn við Vaðlaheiðargöngum en enn þá á ekki að fara eftir áliti þeirra.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað þarf að gerast til þess að hún sem formaður fjárlaganefndar (Forseti hringir.) fari eftir áliti sérfræðinga?