Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 15:22:54 (11286)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:22]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni, ég held að ekki hafi verið gerð nein tilraun til að meta hvaða áhrif hækkandi olíuverð og sú tilhneiging að það dregur úr umferð hafi á umferðarspárnar. Eins og kom fram í ræðu hér fyrr í dag er það farið að sjást meðal annars um Víkurskarð að umferð hefur minnkað þar og menn eru farnir að leggja einkabílnum og veigra sér við að aka langar vegalengdir.

Leiðin um Víkurskarð er falleg og ef ég væri ferðamaður mundi ég frekar vilja aka þá leið en að láta pota mér inn í dimm göng til þess að vera snögg á milli landshluta. Ferðamaðurinn kemur til að horfa í kringum sig. (KLM: Hrafnseyrarheiðin er líka falleg.) Já, já, enda verður hægt að ganga á hana, hv. þm. Kristján Möller, en hún er hættulegur vegur og við leggjum Hrafnseyrarheiðina ekki að jöfnu við Víkurskarð, (Gripið fram í.) það er algjörlega fráleitt hjá hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra að ætla að gera það.

Ég er sammála hv. þingmanni. Hann spurði mig líka hvað ég teldi brýnast að gera í vegamálum fyrir utan jarðgangaframkvæmdir. Ég nefndi bráðnauðsynlegar framkvæmdir í Árneshreppi og þörfina á að leysa þessi mál með Vestfjarðaveg 60, sem fá reyndar 3 milljarða á næstu þremur árum, en það þarf líka að útrýma einbreiðum brúm. Það held ég að sé mjög mikilvægt umferðaröryggismál. Einbreiðar brýr eiga helst ekki að sjást, alls ekki náttúrlega á hringveginum og best væri að við gætum sem fyrst útrýmt þeim öllum.