Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 15:27:18 (11288)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:27]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo margt sem mætti fara betur í opinberri stjórnsýslu. Mér hefur fundist, bæði í þessu máli og ýmsum öðrum, að stundum umgangist menn reglurnar eins og verkfæri sem hægt sé að nota að vild, taka og sleppa að vild. Stundum eru leikreglurnar og vinnureglurnar ekkert annað en leiktjöld í kringum fyrir fram gefna niðurstöðu. Það finnst mér eiga við í stjórnsýslunni almennt og þeirrar tilhneigingar gætir líka hér. Það er slæmt.

Sérstaklega finnst mér ástæða til að við reynum að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem meðal annars er tekið í lurginn á okkur fyrir vinnubrögð í þinginu og þá ásælni framkvæmdarvaldsins að stýra öllu og taka fram fyrir hendurnar á hinu háa Alþingi. Það gerðist í þessu máli þegar það var tekið úr forsjá umhverfis- og samgöngunefndar. Ég geri ekki athugasemd við það að fjárlaganefnd fjalli um mál sem varða ríkisábyrgðir og lánveitingar til framkvæmda en samhengi þessa máls er engu að síður það að það átti að vera jafnhliða á forræði umhverfis- og samgöngunefndar og það á að leita í þessu máli betra samráðs við umhverfis- og samgöngunefnd. Það væri upplýsandi fyrir þingið vegna þess að við erum líka að fara að taka stórar ákvarðanir um samgöngumál vegna samgönguáætlunar.