Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 15:57:14 (11301)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:57]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í hinni klassísku kaynesísku hagfræði sem hefur verið fylgifiskur vestrænna ríkja síðustu öldina, ef svo má segja, með undantekningum kannski sem kenna má við Friedman, og gekk ekkert rosalega vel er gengið út frá því að það borgi sig fyrir ríki að grafa skurð og fylla upp í hann aftur vegna þess að það sé í sjálfu sér hlutverk ríkisins, sérstaklega á krepputímum, að koma fjármagni í umferð. Þarna á auðvitað ekki að grafa skurð til að fylla upp í hann aftur heldur gera göng sem geta verið mistök að því leytinu til að færri bílar fari um göngin en menn vonuðust eftir. Það er áhætta sem ég er að minnsta kosti tilbúinn að taka með opin augun og fara í þá vegferð með það að leiðarljósi að önnur áhrif séu meira virði, þ.e. að koma fjármagni í umferð, auka umferðaröryggi, skapa störf og grípa til aðgerða sem eru virðisaukandi fyrir samfélagið, tengir atvinnusvæði og býr til möguleika á nýsköpun. Ég geri mér grein fyrir því að áhættan er til staðar og verð auðvitað að axla pólitíska ábyrgð þegar í ljós kemur hvernig þessi framkvæmd tekst til.

Ég hef söguna til að miða við og dæmin. Ég er bjartsýnn á að þetta muni ganga eftir og það er á þeirri bjartsýni, auðvitað byggðri á þeim rökum sem ég hef talið upp, sem ég byggi skoðun mína í þessu máli og stuðning minn við það.