Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 17:31:07 (11335)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál sé í sjálfu sér tiltölulega einfalt. Það snýst um hvað við köllum hlutina. Samkvæmt þessu frumvarpi, verði það að lögum, verður fjármálaráðherra heimilt að taka fé úr ríkissjóði og veita til ákveðinnar framkvæmdar. Það á að fara fram undir þeim formerkjum að peningar séu teknir að láni.

Málið er, virðulegi forseti, að ríkissjóði er ætlað að standa undir fjármögnun á nær öllu verkefninu. Af þeim 8,7 milljörðum sem hér er um að ræða er gert ráð fyrir að um 600 millj. kr. verði lagðar í hlutafé, þar af er hluti af því hlutafé sem kemur frá Vegagerð ríkisins. Málið er þetta. Sá sem hefur til þess fjárhagslegt bolmagn að lána 8,7 milljarða til framkvæmdar og lána þar með fyrir henni nær allri, hefur á sama hátt fjárhagslegt bolmagn til að fjármagna alla framkvæmdina, t.d. með hlutafé. Með öðrum orðum, sama hvernig þessu máli er snúið er um að ræða opinbera framkvæmd. Það er ríkið sem ræðst í þessa framkvæmd. Allar tilraunir til að snúa málinu öðruvísi eru dæmdar til að mistakast. Það er enginn munur á því hvort ríkið leggur fram 8,7 milljarða sem hlutafé eða sem lánsfé. Þegar litið er á stöðu ríkissjóðs — (HöskÞ: Vilt þú það?) Hér er kallað fram í af hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og hann spyr: Vil ég það?

Virðulegi forseti. Ef menn eru þeirrar skoðunar að ríkið hafi ekki efni á því að fjármagna þessa framkvæmd, það fari of miklir peningar í það, breytir engu hvort þetta er bókfært sem fjárfesting eða lán til fjárfestingar. Ég á ekki von á því að ég þurfi að útskýra það sérstaklega umfram það sem ég hef sagt.

Það sem ég held að sé skynsamlegt að gera, og hef áður reifað þá skoðun mína, er að ríkissjóður leggi fram hlutafé í þetta fyrirtæki og því verði síðan ætlað að fjármagna restina á framkvæmdinni á einkamarkaði þannig að um einhvers konar einkaframkvæmd geti verið að ræða sem falli undir lög um ríkisábyrgðir. Með öðrum orðum, sú áhætta sem ríkissjóður tekur verði takmörkuð og verkefnið falli þar með líka að þeim skilgreiningum sem við höfum sett um ríkissjóð og meðferð hans. Eins og málið stendur nú er í þessu fólgið hættulegt fordæmi. Svo ég einfaldi mál mitt eins og ég get þannig að ekkert fari á milli mála um hvað er að ræða, má líta svo á, og þetta er til einföldunar, að ríkissjóður sé eins og stór peningakrukka og það skiptir ekki máli hvort menn taka peninginn upp með hægri höndinni eða vinstri. Með öðrum orðum, það að kalla fjárfestingu lán breytir ekki því eðli málsins að verið er að taka peninga úr ríkissjóði. Um það snýst þetta. Svo er hægt að flækja málið eins og menn vilja. Það er hægt að fara í langar umræður um hvort forsendur fyrir kostnaðinum séu réttar eða rangar og það er væntanlega hægt að fara í enn lengri umræður um hvort spár um þróun umferðar gangi eftir o.s.frv. Þær umræður eiga að fara fram á vettvangi samgöngu- og umhverfisnefndar. Hvers vegna? Það er augljóst, þannig hefur þingið komið málum fyrir þegar ríkisfé er sett til framkvæmda. Auðvitað á að fara þá leið.

Ég set mig ekki á móti þessari framkvæmd og hef aldrei gert. En ég er á móti því að fjárfesting sé kölluð lán bara til að komast með hana í gegnum bókhaldið. Það eru leiðir til þess að gera þetta öðruvísi og á það hefur verið bent. En það þýðir að taka þarf tillit til þessara hluta. Menn þurfa að horfast í augu við kostnaðinn og menn þurfa að fara með málið í gegnum réttan farveg í þinginu og taka um leið tillit til þess m.a. hvaða forgang menn ætla að hafa varðandi aðrar framkvæmdir. Ég tel að sökum þess að hér er hægt að taka veggjöld eigi að horfa með öðrum hætti til þessarar framkvæmdar en þeirra framkvæmda ríkisins þar sem slíkt er ekki mögulegt. En það gerir ekki að verkum að menn geti leyft sér að fara svona á ská og skjön við ríkisbókhaldið. Menn geta ekki með öðrum orðum kallað fjárfestingu lán. (Gripið fram í: Hvað sagði Ríkisendurskoðun?) Hér er spurt enn og aftur: Hvað sagði Ríkisendurskoðun? kallar hv. þm. Höskuldur Þórhallsson fram í.

Í fyrsta lagi hefur afstaða þeirra sem fjalla um ábyrgðir ríkisins, þ.e. ábyrgðir á lánum sem ríkið veitir, komið alveg skýrt fram og augljóst hvaða afstöðu þeir aðilar sem þekkja best til málsins hafa haft. Síðan er annað mál hvað Ríkisendurskoðun hefur sagt og aðkomu hennar að málinu og ég ætla að geyma mér það aðeins. En það augljósa er, og það þarf hvorki Ríkisendurskoðun né þá sem fjalla um ríkisábyrgðir til að útskýra það fyrir hv. þingmönnum, að það á ekki að kalla fjárfestingu lán. Menn geta sett þetta upp fyrir sér svona: Hver yrði munurinn, ef menn trúa því að lánið fáist endurgreitt að fullu og með vöxtum, ef ríkissjóður segði: Við skulum bara leggja þetta allt saman inn sem hlutafé. Hvers vegna erum við ekki að ræða í þingsal að ríkissjóður leggi þetta allt inn sem hlutafé, úr því að menn eru sannfærðir um að lánið fáist greitt og öll fjármögnunin er á hendi ríkisins, ríkið á að veita allt lánið? Vegna þess að þá segja menn: Ríkissjóður hefur ekki efni á því að leggja þetta fram sem hlutafé. Og ef ríkissjóður hefur ekki efni á því, hefur hann heldur ekki efni á því að leggja þetta fram sem lánsfé. Ég hefði haldið að það væri alveg augljóst, virðulegi forseti.

Fyrir margt löngu lagði ég til í opinberri umræðu að Alþingi tæki þetta mál úr þeim farvegi sem það hefur verið hér undanfarnar vikur og mánuði. Ég tel að þessu máli hafi verið steypt í farveg sem gerir að verkum að margir þeir sem gjarnan vilja sjá þessa framkvæmd verða að veruleika geta ekki með nokkru móti greitt atkvæði með þessari niðurstöðu. Ég tel að það sé enn tækifæri og tími til að bregðast við, af því að ég tel að staðan sé þannig í þinginu að hægt sé að ná fram góðri sátt um að menn taki tillit til þess að með því að hægt er að taka veggjöld í þessari framkvæmd sé ástæða til að veita henni aukna vigt í samanburði við aðrar sambærilegar framkvæmdir. Það á hins vegar að gera með réttum hætti.

Virðulegi forseti. Ég óska þess að þetta mál gangi aftur til fjárlaganefndar á milli 2. og 3. umr. og tel rétt að þar skoðum við mjög gaumgæfilega aðrar lausnir á þessu máli sem hægt er að leggja fram fyrir þingið og hv. þingmönnum sé ekki stillt upp þannig að þeir þurfi að greiða atkvæði gegn svona framkvæmd vegna þess að fjármögnunin er eins og hér er lagt upp með. Enn og aftur vil ég segja að hér er um að ræða hættulegt fordæmi og fordæmið snýr að því að kalla fjárfestingu lán.

Seðlabanki Íslands hefur birt í gögnum sínum þá ákvörðun sína að ef af þessari framkvæmd verður verði litið á hana sem opinbera framkvæmd, enda er það alveg augljóst. Það verður ekki litið á hana sem einhvers konar einkaframkvæmd og það verður ekki litið á hana öðruvísi af hálfu Seðlabankans en á aðrar opinberar framkvæmdir. En við hér inni, ef þetta mál gengur fram, ætlum að líta svo á að einhver eðlismunur hafi myndast vegna þess að ríkið ætlar sér að lána af því að það hefur ekki efni á að fjárfesta. Þetta er það sem er að við þetta mál og gerir að verkum, enn og aftur, að margir þeir sem telja að sterk rök séu fyrir því að ráðast í þessa framkvæmd með þeim umbúnaði sem ég lýsti áðan, geta ekki sætt sig við þessa niðurstöðu. Það eru ríkari ástæða fyrir því að setja sig á móti henni vegna fordæmisgildisins en fyrir því hvort einhvern tíma tekst að ráðast í hana. Það er nefnilega til lausn, og það er mikilvægt, en þá verða þeir sem hafa harðast barist fyrir því að þessi leið verði farin að brjóta odd af oflæti sínu. Ef þeir eru að hugsa um það fólk sem kaus þá á þing, íbúa þess kjördæmis sem mest munu njóta framkvæmdarinnar, ættu þeir að hugleiða hvort ekki sé líklegt að það tryggi framgang málsins ef hægt verður að ná fram pólitískri sátt á þinginu um aðra framkvæmd þannig að ekki sé verið að kalla fjárfestingu lán og fara á svig við allt. (Gripið fram í.) Ef ekki er hægt að ná því, ef flutningsmenn frumvarpsins og hv. þingmenn og stuðningsmenn þess eru þeirrar skoðunar að ekki verði hægt að ná þessu verkefni fram nema með svona brellum, er auðvitað eitthvað að. Þá er það vegna þess að menn treysta sér ekki að standa fyrir þessu verkefni þegar það er borið saman við önnur verkefni, þrátt fyrir þá staðreynd að um er að ræða töku veggjalda sem breytir auðvitað allri verkröðun því í hag. Ég held að hv. þingmenn sem ætla sér að samþykkja þetta ættu að manna sig aðeins upp og skoða hvort þeir geti ekki staðið fyrir málflutningi sínum með ögn bærilegri hætti en þeir hafa gert.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra. En ég vil segja þetta: Samgönguframkvæmdir, hvort heldur er á höfuðborgarsvæðinu eða í hinum dreifðu byggðum, eru mikilvægar. Þær eru mjög mikilvægar í þjóðhagslegu samhengi þegar reynt er að slá á þær máli með krónum og aurum en líka þegar kemur að lífsgæðum borgaranna, möguleikum þeirra til að sækja vinnu og njóta samvista. Þess vegna er mikilvægt að við höldum okkur við þann ramma sem við höfum byggt upp á Alþingi og röðum framkvæmdum þannig að um þær sé bærileg og góð sátt. Auðvitað verða ekki allir alltaf sáttir en þannig höfum við staðið að þeim og á undanförnum árum hafa átt sér stað gríðarlegar framkvæmdir. Við sjálfstæðismenn teljum að gefa þurfi í í þessum málaflokki, ástæða sé til að auka framkvæmdirnar og þess vegna höfum við sagt að það sé ástæða til að skoða þá lausn sem er innan þess ramma sem samgönguáætlun setur; að fjármunirnir verði settir inn í félagið og ef það, með það hlutafé að baki sér, getur síðan fjármagnað það sem upp á vantar á markaði, m.a. frá lífeyrissjóðum eða bönkum, eigi að ráðast í framkvæmdina. Þess vegna eigi að taka hana fram fyrir aðrar framkvæmdir. En aðalatriðið er að hún verði innan þess ramma sem Alþingi hefur sjálft myndað um slíkar framkvæmdir og það á ekki, enn og aftur, að kalla fjárfestingu lán.