Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 17:54:39 (11342)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:54]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir hans skýru svör. Mig langar að spyrja hann frekar út í vigt og vægi veggjalda. Er það ekki sérstakt viðfangsefni okkar á þingi að ræða vægi veggjalda yfir höfuð og hvaða vigt þau gefa tilteknum framkvæmdum? Það hefur í raun vantað umræðu um hvernig við eigum að fara með slíkar framkvæmdir, hvort veggjöld réttlæti að þeim sé skotið fullkomlega fram fyrir önnur og ef það er réttlætanlegt hvaða forsendur verði að vera uppfylltar. Það hefur ekki farið fram nein heildstæð umræða um þetta. Hana skortir og við verðum að fara í hana. Það er algert höfuðatriði að við sjáum (Forseti hringir.) hlutina í samhengi vegna þess að ég tel óásættanlegt að setja t.d. umferðaröryggi langtum neðar en aðra þætti.