Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 18:00:00 (11346)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er algerlega sammála því að það er eitt af hinum slæmu fordæmum í þessu máli. Annað slæmt fordæmi er að menn fari að leita eftir því — „ríkt svæði“ er kannski ekki rétt hugtak sem ég beitti áðan en ég á við að svæði sem búa að því að geta fjármagnað verkefni með veggjöldum að einhverju leyti fari að fara þessa leið til að fá sitt verkefni á undan öðrum verkefnum. Þau búa til eitthvert félag í kringum það sem á einhverja takmarkaða peninga og fá svo Vegagerðina til að vera á móti sér í hlutafélaginu og sterka þingmenn á þingi til að sækja málið. Hvenær verða þá Dýrafjarðargöng að veruleika? Hvenær verða þau grunnverkefni sem við ættum að klára, a.m.k. meðfram hinum stórkarlalegu framkvæmdum sem við erum að tala um hér, að veruleika? Það er hætt við því að þetta gangi úr liði og skorðum (Forseti hringir.) ef ekki er mjög vel skilgreint á hvaða forsendum við getum leyft okkur þessa þriðju leið.