Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 18:37:08 (11360)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:37]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í máli mínu áðan tel ég að hægt hefði verið að standa að þessu máli með allt öðrum hætti frá upphafi. Því miður hefur ríkisstjórninni ekki gengið neitt sérstaklega vel með verkefnið, eins og ég kom inn á, og gert mörg axarsköftin sem gerir það að verkum að hægt er að gagnrýna þessa framkvæmd.

Hvort skynsamlegra sé að taka framkvæmdalán til sex ára eða fjármagna það til enda, ég skal ekki segja, ég mundi samþykkja hitt fyrir mitt leyti ef ég teldi allar forsendur fyrir því að það væri skynsamlegra. En ég verð þó að segja eins og er að ég tel þetta skynsamlega leið þó að einhver önnur leið gæti jafnvel verið skynsamlegri, ég skal ekki segja um það. Ég hef tekið þá ákvörðun að styðja þetta verkefni vegna þess að ég tel að þetta sé einfaldlega langódýrast fyrir ríkissjóð.