Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 20:56:24 (11388)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má eyða löngum stundum í að ræða lífeyrissjóðina og félagslega ábyrgð þeirra og sú umræða getur tekið á sig ýmsar myndir. Ég verð samt að viðurkenna, herra forseti, að eftir ræðu hæstv. ráðherra varð málið eiginlega enn þá ruglaðra en það var í dag fyrir mér, því þegar maður fer að rifja upp hvernig búið er að hræra í því fram og til baka veltir maður fyrir sér hvar í ósköpunum það geti endað. Ég hugsa að það endi nú einhvern tímann með því að það verða boruð göng undir þetta fjall, en það virðist afar sérkennilegt að fara í þá vegferð sem hér er lögð til.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í þær breyttu forsendur til rökstuðnings því að staldra við í málinu, sem ráðherra fór ágætlega yfir. Við hljótum að velta því fyrir okkur þegar farið er yfir ferlið og ljóst er að svo margt hefur breyst: Hvers vegna í ósköpunum er ekki staldrað við? Hvers vegna er málið rekið svona áfram?

Við vitum að við stjórnmálamenn getum oft verið mjög einarðir í okkar afstöðu um að ná fram hinum og þessum málum, en hér er um að ræða gríðarlega stóra og flókna framkvæmd og mjög dýra. Það er alveg ljóst að mikill meiningarmunur er á milli þeirra sem telja að aðferðafræðin sé rétt og verkið geti staðið undir sér og þeirra sem telja að svo sé ekki, en ég velti því fyrir mér hvernig standi á því að við erum stödd á þessum stað með málið í algjörum hnút, algjöru pólitísku rugli hér á Alþingi. Stjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkar tvístrast út og suður í þessu máli. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að staldra aðeins við.