Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 22:05:57 (11410)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd og þekkir málið út og inn og varpar þessum spurningum fram í þingsal. Það er þá best að varpa spurningum til baka: Hvað óttast fjárfestar úr því að búið er að leggja þetta dæmi upp með þessari ávöxtun? Hvers vegna vilja engir hoppa á vagninn í þessu verkefni?

Svo langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hvaða banki var það sem gaf þessa einu jákvæðu umsögn og sérhæfir sig í mati á verkefnum og fjárfestingarkostum og í því að selja þær hugmyndir og þær niðurstöður sem þeir reikna sig að?

Síðan langar mig að spyrja aðeins út í þá fjármálareglu sem 1. minni hluti fjárlaganefndar minnist á í nefndaráliti sínu sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er á ásamt hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Það er þessi regla sem er hér. Hefur hún verið brotin áður? Hefur það verið rökstutt að verið sé að fara fram hjá þessu? Fram kemur í nefndarálitinu að fara þurfi varlega í þessu máli vegna þess að þessi regla sé tekin úr sambandi og ábyrgðarþeginn þurfi þá ekki að leggja fram að minnsta kosti 20% af heildarþörf verkefnisins eða viðeigandi tryggingar að mati Ríkisábyrgðasjóðs og gæta þess að ábyrgð ríkissjóðs skuli ekki nema hærra hlutfalli en 75% af lánsþörf.

Er þetta einsdæmi eða er til fordæmi fyrir þessu eða hvað er hér í gangi?