Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 22:12:35 (11413)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var svo sem ekki að ástæðulausu að við settum það inn í nefndarálitið okkar að verið væri að samþykkja lokafjárlög fyrir árið 2010, þar sem um 28 milljarðar féllu á ríkið, í sömu andrá og við samþykkjum þessa ríkisábyrgð hér. Mér fannst að það ætti að vera skýr áminning um að fara bæri varlega en ekki vera að taka úr sambandi þær reglur sem gilda eiga um ríkisábyrgð. Þetta var eins konar „signal“ inn í þingið þannig að hv. þingmenn áttuðu sig á því.

Hv. þingmaður talaði líka í andsvari sínu um rangar tölur og það sem væri í excel-skjölunum. Tölurnar eru byggðar á umferðarspá Vegagerðarinnar þar sem fólk er mjög fært í að gera slíka spá. En eigi að síður var byrjað á ákveðnum punkti þegar vinna við Vaðlaheiðargöng hófst og menn fóru að reikna spána en staðan í dag er 10% undir því sem hún á að vera samkvæmt spánni. Það eru auðvitað margar ástæður fyrir því sem ég þarf ekki að fara í hér. Það er þetta sem við vitum. Við getum ekkert fullyrt um hitt, það getur það enginn. En umferðarspáin og vinna Vegagerðarinnar var mjög vönduð að þessu leyti. Enginn sem skoðað hefur málið efast um það.

Mig langar líka að benda á að spáð er 90% umferð í gegnum göngin en þegar Spölur bauð út fjármögnun á verki sínu var reiknað með sömu umferð um Hvalfjarðargöngin. Þá var þeim bent á að það þýddi ekki fyrir þá að reyna annað en að miða við rúm 70%, það yrði að sýna fram á að 70% af umferðinni væru um göngin, það væri forsenda fyrir því að Spölur fengi fjármögnun á einkaframkvæmd. Það er auðvitað umhugsunarvert hverjir möguleikarnir eru til að fara í endurfjármögnun eftir 2008.