Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 22:17:10 (11415)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar. Hæstv. ráðherra hafði svo sem ekki nægan tíma til að fara vel yfir lokaatriðin sem ég legg mesta áherslu á, þ.e. hver staðan er á þessu ferli sem hófst með samvinnu sem ég var auðvitað mjög sáttur við hjá hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra kom mjög heiðarlega fram í þessu máli og talaði með sama hætti hér og fyrir vestan. Það voru ekki neinar umbúðir í kringum það og eins og hæstv. ráðherra kom inn á var þessum leiðum um Hjallahálsinn hafnað, því að fara yfir svokallaða hálsa, bæði Ódrjúgsháls og Hjallaháls, og gerð krafa um að fara láglendisleið.

Af hverju er ég að kalla eftir upplýsingum um hvar vinnan stendur? Ein af hugmyndunum var að fara með göng undir Hjallaháls og ég spurði sveitarstjórnarmenn mjög skýrt þegar við þingmenn funduðum með þeim hvort hugsanlega gæti orðið einhver ágreiningur um það hvort yrði á undan Dýrafjarðargöng eða Hjallaháls ef þessi niðurstaða yrði með sunnanverða Vestfirði. Að mati forustumanna Fjórðungssambands Vestfjarða og samgöngunefndar var að svo yrði ekki.

Þess vegna vil ég biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins betur yfir það hvar málið er statt ef hann hefur upplýsingar við höndina af því að það er auðvitað mjög mikilvægt og við þekkjum það að brýnasta samgöngubótin á landinu er á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég ítreka að ég fagna öllum framkvæmdum. Það má ekki skilja mig öðruvísi. Eins spyr ég hvort hann sjái einhverja möguleika á að þetta verði 2019, hann eiginlega svaraði því að það væri ekki raunhæft að flýta því vegna þeirrar vinnu sem fram undan væri.