Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 22:19:21 (11416)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þegar því var hafnað að fara hálendisleiðina, þ.e. að laga Hjallahálsinn og forgangsraða með öðrum hætti, var ákveðið að halda áfram framkvæmdum á leiðinni yfir Þverá og ráðast síðan í rannsóknir á eystri kaflanum. Þá er um tvennt að ræða, annars vegar að fara undir Hjallahálsinn með göngum, og það krefst rannsókna sem Vegagerðin er að undirbúa, eða þvera firði. Þverun fjarða er hins vegar ekki einsleitur valkostur. Það er hægt að fara ýmsar leiðir hvað það snertir en þar er um að ræða mjög viðkvæmar framkvæmdir líka sem þarf að huga vel að.

Í mínum huga er Teigsskógur kominn alveg út af borðinu á sama hátt og við tókum það út af borðinu að fara yfir Hjallaháls. Við erum að leita leiða sem sátt gæti skapast um. En við þurfum líka að fara varlega í þverunina. Hún getur verið eyðileggjandi en hún getur líka verið umhverfisvæn. Þverun fjarða með brúm sem hafa vítt haf geta þyrmt umhverfinu og þyrma botni fjarðanna vegna þess að áður fyrr hætti okkur til að fara í leirurnar innarlega í fjörðum og spilla þeim. Þverun utan í fjörðunum með víðu hafi getur verið umhverfisvæn. Þetta er allt í góðri þróun. Við Íslendingar höfum lært mjög mikið af mistökum undangenginna ára og ég vísa þar til dæmis í Gilsfjörðinn. Það mundi ekki henda okkur aftur að drepa lífríkið innarlega í Gilsfirðinum eins og við gerðum þegar ráðist var í þá framkvæmd (Forseti hringir.) en þetta eru allt hlutir sem eru til skoðunar, umhugsunar og umræðu að sjálfsögðu.